Dagsetning                       Tilvísun
28. jan. 1991                             223/91

 

Virðisaukaskattur af gjöfum.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 12. febrúar 1990, þar sem fram kemur að samtök fólks sem hefur lamast vegna skemmda á mænu hafi staðið fyrir söfnun vegna byggingar íbúðarhúsnæðis fyrir félaga sína. Gjafir sem bárust voru bæði frá einstaklingum og fyrirtækjum, bæði efni, vinna og þjónusta í tengslum við bygginguna. Óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna gjafanna.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

Gjafir frá óskráðum aðilum.

Gjafir óskráðra aðila, þ.e. aðila sem ekki stunda virðisaukaskattsskylda starfsemi, bera ekki virðisaukaskatt. Því greiða t.d. einstaklingar utan atvinnurekstrar ekki virðisaukaskatt þótt þeir gefi dagsverk til framkvæmdanna.

Gjafir skráðra aðila.

Meðferð virðisaukaskatts hjá skráðum aðilum eru með mismunandi hætti eftir því (1) hvort fyrirtæki gefur vöru/þjónustu sem það selur eða framleiðir (t.d. ef vara er gefin af lager fyrirtækis) eða (2) hvort um er að ræða vöru/þjónusbu sem fyrirtækið kaupir gagngert í því skyni að gefa til byggingarinnar.

Um (1) :

Skráðum aðila ber að greiða virðisaukaskatt af andvirði vöru og skattskyldrar þjónustu sem hann afhendir án endurgjalds (gjafir) þegar um er að ræða vöru eða þjónustu sem aðili framleiðir eða selur, sbr. l. mgr. 11. gr. virðisaukaskattslaga. Þegar svona háttar hefur aðili fengið innskattsfrádrátt vegna öflunar viðkomandi verðmæta. Skattverð (það verð sem virðisaukaskattur reiknast af) skal vera almennt gangverð í sams konar viðskiptum, sbr. 2. mgr. 8. gr. laganna.

Um (2) :

Í þessu tilviki telst afhending vörunnar eða þjónustunnar ekki til skattskyldrar veltu gefandans, enda er aðilanum ekki heimilt að telja til innskatt þann virðisaukaskatt sem hann hefur greitt vegna öflunar verðmætanna. Sjá um þetta 3. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.