Dagsetning                       Tilvísun
4. feb. 1991                             238/91

 

Virðisaukaskattur af starfsemi tollembætta.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 15. desember 1989, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra varðandi virðisaukaskatt af starfsemi tollembætta. Spurt er hvort eftirfarandi beri virðisaukaskatt:

  1. a) Neyðarleyfisgjald og tollskoðunargjald af innfluttri vöru sem á að standa straum af tollaeftirliti sem er meira en venjubundið eftirlit.
    b) Önnur útseld vinna við tolleftirlit.
  2. Greiðsla vegna notkunar tollbáts við tollafgreiðslu skipa erlendis frá.
  3. Greiðsla vegna aksturs við tollafgreiðslu aðkomufara.
  4. Geymslugjald vegna póstsendingar, fast gjald á afgreiðslu.
  5. Tollmeðferð póstsendinga, fast gjald á afgreiðslu.
  6. Einkasölugjald innheimt fyrir ÁTVR.
  7. Sala á tolliskrá.
  8. Sala á disklingum sem hafa að geyma tollskrána.
  9. Útleiga á stæðum (í tollhúsi).
  10. Ýmis fógetakostnaður sem fellur til við innheimtu aðflutningsgjalda (t.d. stefnur, þingfesting, uppboðskostnaður, gjaldþrotabeiðni o.fl.).

Ríki, bæjar- og sveitarfélög og stofnanir eða fyrirtæki þeirra er skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð, að svo miklu leyti sem þeir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. l. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt. Eins og fram hefur komið af hálfu ríkisskattstjóra í viðræðum við yðar verður ekki séð að neitt ofantalið geti fallið undir þetta ákvæði um skattskyldu opinberra stofnana nema sú vörusala sem felst í sölu á tollskrá og disklingum með tollskrá. Nákvæmar upplýsingar um þessa starfsemi liggja ekki fyrir og verður því fjallað almennt um starfsemi opinberra stofnana á þessu sviði.

Útgáfustarfsemi og önnur vörusala opinberra stofnana er skráningarskyld (skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt) að því leyti sem hún er í samkeppni við atvinnufyrirtæki.

Við mat á því hvenær starfsemi af þessu tagi telst vera sambærileg við starfsemi atvinnufyrirtækja – og þar af leiðandi skráningarskyld – er aðallega miðað við hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri. Skráningarskylda er ekki talin vera fyrir hendi ef tekjur af starfsemi eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.

Tekið skal fram að þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 172.300 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu l. janúar 1991) eru undanþegnir skattskyldu.

Opinberar stofnanir mega einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu, sbr. 4. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga. Þannig getur stofnunin aðeins talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem hún greiðir vegna beins kostnaðar við hið selda. Ákvæði í reglugerð nr. 530/1989 um skiptingu innskatts vegna blandaðrar starfsemi taka ekki til opinberra stofnana.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.