Dagsetning Tilvísun
22. febrúar 1991 245/91
VSK – innlend viðskipti varnarliðsmanna.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 6. nóvember 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á eftirfarandi atriðum:
- Ber Bifreiðaskoðun Íslands hf. að innheimta virðisaukaskatt þegar varnarliðsmenn á Keflavíkurflugvelli greiða fyrir tilkynningu um eigendaskipti bifreiða. Um er að ræða erlenda menn og bílaviðskipti þeirra sín á milli. Tilkynningunum er veitt móttaka í „hliði“ vallarins af starfsmanni lögreglustjórans í Keflavík.
- Ber félaginu að innheimta virðisaukaskatt af annarri þjónustu gagnvart varnarliðsmönnum en talað er um í lið l. Um er að ræða þjónustu eins og skoðunargjöld, skráningargjöld og sölu númera. Þessi þjónusta er innt af hendi í útibúi Bifreiðaskoðunar Íslands hf. í Keflavík.
Til svars erindinu vill ríkisskattstjóri taka fram að skráðum aðilum ber ætíð að innheimta virðisaukaskatt við sölu skattskyldrar vöru og þjónustu til einstakra varnarliðsmanna og aðila sem vinna í þágu varnarliðsins, þar með talið af viðskiptum af því tagi sem fyrirspurnin fjallar um. Sala skattskyldrar þjónustu til varnarliðsins sjálfs er hins vegar undanþegin skattskyldri veltu skv. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr., sbr. 48. gr. virðisaukaskattslaga.
Hjálagt fylgir til fróðleiks bréf ríkisskattstjóra frá 6. desember 1990 til allra skattstjóra þar sem fjallað er um virðisaukaskatt af viðskiptum varnarliðsins við innlenda aðila.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson