Dagsetning Tilvísun
22. feb. 1991 254/91
Virðisaukaskattur af starfsemi Í.
Með bréfi yðar, dags. 15. febrúar 1990, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort starfsemi Í og H teljist til skattskyldrar starfsemi. Nánar tiltekið er um að ræða reiðskóla og útivistarstarf fyrir börn.
Að áliti ríkisskattstjóra tekur undanþáguákvæði 5. tölul., sbr. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga til þeirrar starfsemi sem hér um ræðir.
Ríkisskattstjóri túlkar undanþáguákvæði 5. tölul. þannig. að það taki til allrar sölu íþróttafélaga á aðstöðu til æfinga og iðkunar íþrótta. Með íþrótt er átt við hvers konar líkamlega þjálfun með iðkun íþróttagreinar sem almennt er stunduð innan aðildarfélaga X, hvort heldur sem tilgangur þjálfunarinnar er keppni og afrek eða stefnt er aðallega að heilsurækt og dægradvöl. Leikjanámskeið á vegum íþróttafélaga fyrir börn og unglinga falla einnig hér undir, svo og starfsemi innan íþróttadeilda hestamannafélaga.
Að áliti ríkisskattstjóra er sú starfsemi opinberra aðila sem sambærileg er undanþeginni starfsemi íþróttafélaga undanþegin skv. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna.
Undanþágan veldur því að Z (1) innheimtir ekki virðisaukaskatt af þátttökugjöldum og (2) nýtur ekki réttar til endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum vegna hinnar undanþegnu starfsemi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.