Dagsetning                       Tilvísun
21. mars 1991                             260/91

 

Virðisaukaskattur af hitaveituframkvæmdum í sveitum.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 31. janúar sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvernig fara skuli með virðisaukaskatt vegna hitaveituframkvæmda í sveitum.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

I.

Hitaveituframkvæmdir í sveitum geta verið með ýmsu móti. Nokkur mismunandi afbrigði eru nefnd í síðari kafla þessa bréfs, en fyrst verða reifaðar almennar reglur um virðisaukaskatt sem hér þykja hafa þýðingu. Það er almenn regla að skráður aðili samkvæmt lögum um virðisaukaskatt (virðisaukaskattsskyldur aðili)  fær endurgreiddan virðisaukaskatt af aðföngum sem eingöngu varða þá starfsemi hans sem skattskyld er samkvæmt lögunum. Til aðfanga má telja kostnað við framkvæmdir vegna t.d. vatnsveitu, öflunar heits vatns og raforkuframleiðslu að svo miklu leyti sem þær framkvæmdir varða skattskylda starfsemi skráðs aðila.

Af þessu leiðir að skráður aðili verður að skipta áætlaðri vatnsnotkun, rafmagnsnotkun o.s.frv. í (1) heimilisnot og (2) notkun vegna atvinnurekstrar.

Kostnaður (að meðtöldum virðisaukaskatti) við gerð veitu o.s.frv. skiptist í sama hlutfalli í rekstrarkostnað og kostnað sem ekki varðar atvinnurekstur. Gera skal grein fyrir þessari skiptingu í rekstrarreikningi með tekjuskattsframtali.

Virðisaukaskattur af þeim hluta kostnaðar sem telst rekstrarkostnaður er frádráttarbær sem innskattur að því leyti sem hann varðar virðisaukaskattsskyldan rekstur. Þannig fær skráður aðili sem bæði hefur með höndum svonefnda blandaða starfsemi, t.d. bæði landbúnað og sölu gistiþjónustu, ekki innskatt nema af þeim hluta sem varðar landbúnaðinn, þ.e. hinn virðisaukakattskylda þátt starseminnar.l

Ef aðili með blandaða starfsemi getur ekki sérgreint kostnað (og virðisaukaskatt) í skattskyldan þátt og undanþeginn má miða skiptingu skattsins í innskatt og virðisaukaskatt sem ekki er frádráttarbær við hlutfall virðisaukaskattsskyldrar sölu (án virðisaukaskatts) af heildarveltu ársins. Sjá nánar leiðbeiningarit ríkisskattstjóra, RSK 11.15, bls. 33.

Selji aðili heitt vatn eða aðra orku í atvinnuskyni hefur hann fullan innskattsfrádrátt vegna þeirrar starfsemi. Eigin úttekt eiganda fyrirtækis á vöru sem það framleiðir eða selur er skattskyld skv. 1. mgr. 11. gr., sbr. . gr. virðisaukaskattslaga.

II.

Verður nú vikið að nokkrum afbrigðum sem komið geta upp í þessu sambandi. Tekið skal fram að vafalaust geta fleiri tilvik komið til:

  1. Jarðhitaeigandi selur í atvinnuskyni vatn til notenda og leggur sjálfur þær lagnir sem til þarf.

    Hér er um að ræða sölu á heitu vatni í atvinnuskyni og er sú starfsemi skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Sala á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns telst þó ekki til skattskyldrar veltu skráðs seljanda, þ.e. ber „núllskatt“‘, sbr. 11. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna. Önnur vatnssala en til framangreindrar notkunar ber 24,5% virðisaukaskatt.

    Seljandi getur talið virðisaukaskatt af stofnkostnaði og rekstrarkostnaði til innskatts, bæði vegna sölu á vatni til hitunar húsa og laugarvatns og annarrar vatnssölu.
  1. Jarðhitaeigandi selur í atvinnuskyni vatn til notenda en notendur kosta og leggja í sameiningu lagnir sem nauðsynlegar eru.

    Hér er um að ræða skattskylda vatnssölu á sama hátt og í fyrsta dæmi. Sala á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns telst ekki til skattskyldrar veltu skráðs seljanda eins og að framan er rakið, en önnur vatnssala ber 24,5% virðisaukaskatt. Tekið skal fram að sala á heitu vatni til endursölu fellur að áli.ti ríkisskattstjóra ekki undir 11. tölul. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga og ber því 24,5% virðisaukaskatt.

    Jarðhitaeigandi getur talið virðisaukaskatt vegna boranaframkvæmda o.s.frv. til innskatts, en einstakir notendur fá virðisaukaskatt af framkvæmdum við lagnir endurgreiddan sem innskatt að svo miklu leyti sem vatnið er vegna notkunar í virðisaukaskattsskyldri starfsemi, sbr. almenna umfjöllun í I. hér að framan.
  1. Jarðhitaeigandi selur jarðhitaréttindi til notenda sem síðan bora eftir vatni eða nálgast það á annan hátt og leggja lagnir sem nauðsynlegar eru.

    Hér er ekki um að ræða sölu á heitu vatni heldur sölu jarðhitaréttinda. Slíkt afsal fasteignatengdra réttinda er utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga, sbr. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Það þýðir að virðisaukaskattur leggst ekki á söluna en seljandi hefur ekki rétt til að telja virðisaukaskatt af aðföngum vegna sölunnar til innskatts.

    Virðisaukaskattur sem einstakir notendur greiða vegna borana og lagna fæst frádreginn sem innskattur að svo miklu leyti sem notkunin er vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi, sbr. almenna umfjöllun í I. hér að framan.
  1. Jarðhitaeigandi notar einn það vatn sem hann aflar.

    Í þessu tilviki fer um rétt til innskatts vegna öflunar á heitu vatni, t.d. vegna borana og lagna, algjörlega eftir þeim reglum sem raktar voru í kafla I. hér að framan.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.