Dagsetning                       Tilvísun
21. mars 1991                             264/91

 

Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna sandblásturs og háþrýstiþvotts íbúðarhúsnæðis.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 20. febrúar sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort húseigendur eigi rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna eftirfarandi framkvæmda:

  1. Sandblásturs, en hann er almennt seldur pr. m2 vegna vinnu og tækja.
  1. Háþrýstiþvotts, sem einnig er seldur pr. m2 vegna vinnu og tækja.

Ríkisskattstjóri skilur fyrirspurnina þannig að átt sé við endurgreiðslur til eigenda íbúðarhúsnæðis, sbr. reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

Endurgreiðslur samkvæmt nefndri reglugerð taka aðeins til þess virðisaukaskatts sem húseigendur hafa greitt vegna vinnu manna á byggingarstað við nýbyggingu, endurbætur og viðhald eignar sinnar. Hvorki fæst endurgreiddur virðisaukaskattur af efniskostnaði né tækjavinnu. Virðisaukaskattur af vinnu stjórnenda vinnuvéla, jafnt þungavinnuvéla sem véla iðnaðarmanna o.fl., fæst ekki heldur endurgreiddur, sbr. 2. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar.

Með vísan til framangreinds er það álit ríkisskattstjóra að íbúðareigendur fái ekki endurgreiddan virðisaukaskatt vegna sandblásturs eða háþrýstiþvotts á grundvelli reglugerðar nr. 449/1990.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.