Dagsetning Tilvísun
21. mars 1991 265/91
Ríkisskattstjóri hefur 11. febrúar 1991 móttekið erindi yðar þar sem þess er farið á leit að vatnsveita G fái endurgreiddan virðisaukaskatt sem hún greiddi verktaka sem annaðist framkvæmdir við miðlunartank við aðveitukerfi veitunnar.
Til svars erindinu vill ríkisskattstjóri taka fram að öll byggingarþjónusta og vinna við land, byggingar og önnur mannvirki er virðisaukaskattsskyld, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Verktaka, sem hefur framkvæmd r af þessu tagi með höndum í atvinnuskyni, er skylt að innheimta og skila til ríkissjóðs virðisaukaskatti af heildarandvirði þeirra, sbr. 1. tölul. l. mgr. 3. gr. laganna. Hefði sveitarfélagið sjálft haft þessar framkvæmdir með höndum hefði því borið að reikna og greiða til ríkissjóðs virðisaukaskatt af framkvæmdunum, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 248/1990. Sú reglugerð er sett á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt með það að markmiði að samkeppnisstaða sjálfstæðra verktaka og opinberra aðila, sem láta starfsmenn sína annast verklegar framkvæmdir, verði sem jöfnust.
Aðalstarfsemi vatnsveitna, þ.e. sala eða afhending vatns, telst ekki virðisaukaskattsskyld starfsemi, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 248/1990. Aðilar sem undanþegnir eru virðisaukaskattsskyldu verða að greiða virðisaukaskatt við kaup allra aðfanga sinna, annarra en þeirra sem sérstaklega eru undanþegin skatti. Kemur þessi regla skýrt fram í 4. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.
Engin heimild er til þess í lögunum eða reglugerðum sem settar hafa verið samkvæmt þeim að endurgreiða sveitarfélögum virðisaukaskatt umfram það sem kveðið er á um í 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990. Erindi yðar er því synjað.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.