Dagsetning Tilvísun
19. apríl 1991 267/91
Virðisaukaskattur af flutningastarfsemi.
Með bréfi yðar, dags. 25. mars sl., er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort „skylt sé að greiða virðisaukaskatt af flutningi pramma milli hafna landsins en hann mun vera dreginn af skráningarskyldu skipi“. Segir í bréfinu að tilefni þessa erindis sé það að umbjóðandi yðar hafi stundum fengið aðra aðila, m.a. opinbera aðila, til að vinna fyrir sig verk sem þessi án þess að vera krafðir um virðisaukaskatt.
Til svars erindinu sendist yður ljósrit af bréfi ríkisskattstjóra til umbjóðanda yðar, dags. 28. sept. 1990, en þar er svipaðri spurningu svarað. Eins og þar kemur fram er flutningastarfsemi, önnur en fólksflutningar, skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Skiptir ekki máli hvort hlutur er fluttur um borð í skipi eða dreginn. Því ber þeim sem slíka flutninga stundar í atvinnuskyni að innheimta og skila virðisaukaskatti af heildarendurgjaldi fyrir þjónustu sina. Í sumum tilvikum er heimilt að halda endurgjaldi fyrir flutning utan skattskyldrar veltu, sbr. nánar 2. og 5. tölul. l. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga.
Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga er stofnunum eða fyrirtækjum ríkis og sveitarfélaga skylt að innheimta og skila virðisaukaskatti af þeirri starfsemi sem þessir aðilar hafa með höndum í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Að áliti ríkisskattstjóra eru vöruflutningar, sem opinberir aðilar sinna gegn gjaldi, dæmi um starfsemi sem ákvæðið tekur til.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.