Dagsetning                       Tilvísun
22. feb. 1991                             270/91

 

Virðisaukaskattur af sölu listaverka og söluþóknun fyrir listaverkasölu.

Með bréfi yðar, dags. 25. mars sl., er þess farið á leit við ríkisskattstjóra að hann láti í té greinargerð um skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af sölu myndlistar, sérstaklega í svokölluðum myndlistar-„galleríum“.

Til svars erindinu skal tekið fram að reglur um virðisaukaskatt af sölu listaverka eru mismunandi eftir því hvort um er að ræða:

–           Eigin sölu listamanns.

–           Sölu listamanns með aðstoð mill1göngumanns, t.d. gallerís.

–           Listaverkasölu í atvinnuskyni þegar seljandi er ekki höfundur verks.

–           Sölu á listmunauppboði.

Áður en vikið verður að einstökum afbrigðum skal nokkur grein gerð fyrir almennum reglum virðisaukaskattslaga sem þykja hafa þýðingu i þessu sambandi.

Almennt.

Listaverk eru skattskyld vara (skattandlag) í skilningi virðisaukaskattslaga, en í l. mgr. 2. gr. laganna segir að skattskylda samkvæmt lögunum nái til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra.

Aðeins þeir aðilar sem skattskyldir eru samkvæmt lögunum skulu innheimta og skila virðisaukaskatti af viðskiptum. Í 3. og 4. gr. laganna kemur fram hverjir eru skattskyldir aðilar og hverjir eru undanþegnir skattskyldu. Meginreglan er sú að skattskylda er bundin við þá sem stunda atvinnurekstur eða hafa með höndum sjálfstæða atvinnustarfsemi, enda nemi samtals sala þeirra á skattskyldri vöru og þjónustu ákveðnu lágmarki. Sérákvæði gildir um listamenn og uppboðshaldara, sbr. nánar hér að neðan.

Eigin sala listamanna.

Samkvæmt 2. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga eru listamenn undanþegnir skattskyldu að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum sem falla undir tollskrárnúmer 9701.l000 til 9703.0000. Undanþágan hefur þá þýðingu að listamenn innheimta ekki virðisaukaskatt við sölu verkanna, en fá ekki endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem þeir greiða við kaup á aðföngum sínum, s.s. þjónustu milligöngumanns um listaverkasölu (sbr. síðar).

Eftirfarandi listaverk falla undir hin tilgreindu tollskrárnúmer:

  1. Málverk, teikningar og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti, þó ekki;

(a)        uppdrættir og teikningar til notkunar í húsagerð, verkfræði, iðnaði, viðskiptum,landslagsfræði eða þess háttar handgerð frumverk,

(b)        handskrifaður texti,

(c)        ljósmyndir á ljósnæmum pappír og

(d)       handmálaðir eða handskreyttir framleiddir hlutir.

  1. Klippimyndir og áþekk veggskreytispjöld.
  1. Frumverk af stungum, þrykki og steinprenti, þ.e. myndir sem þrykktar eru beint í svörtu og hvítu eða í lit með einni eða fleiri plötum sem listamaðurinn hefur gert að öllu leyti í höndunum, án tillits til þeirra aðferða eða efnis sem hann notar, þó ekki með neins konar vélrænum eða ljósvélrænum aðferðum.
  1. Frumverk af höggmyndum og myndastyttum, úr hvers konar efni. Til þessa flokks teljast hvorki fjöldaframleiddar endurgerðir af listaverkum né venjulegar handiðnaðarvörur sem hafa einkenni verslunarvöru.

Rammar utan um málverk, teikningar, pastelmyndir, klippimyndir eða áþekk veggskreytispjöld, stungur, þrykk eða steinprent telst hluti af þessum vörum, enda séu þeir að gerð og verðmæti í eðlilegu samræmi við þær.

Að öðru leyti en að framan greinir skiptir ekki máli til hverra nota listaverk er selt. Þannig tekur undanþága 2. tölul. 4. gr. til sölu listamanna á myndskreytingum og teikningum til notkunar í bök, þ.m.t. á bókarkápu, svo og til notkunar sem ritstjórnarefni í dagblaði eða tímariti. Skilyrði er að um sé að ræða eigin verk seljanda, að öllu leyti gert í höndum, og að ekki sé um að ræða auglýsingateikningu.

Sala fyrir milligöngu listaverkasala o.fl.

Ríkisskattstjóri lítur svo á að sala listamanns fyrir tilstuðlan milligöngumanns, þ.m.t. listaverkasala, gallería og annars sýningaraðila, falli undir undanþáguákvæði 2. tölul. 4. gr., enda, sé eftirfarandi skilyrða gætt:

  1. Fyrir liggi skriflegur samningur listamanns og milligöngumanns þar sem fram komi að sala listaverkannafari fram í nafni listamannsins og fyrir hans reikning, en þóknun milligöngumanns (sölulaun) sé ákveðinn hundraðshluti af söluverði eða umsamin föst upphæð.

Í samningi aðila skal jafnframt felast að listamaður hafi fullan ráðstöfunarrétt og eignarrétt á listaverki gagnvart milligöngumanni þar til verkið hefur verið selt kaupanda.

  1. Kaupandi skal fá söluskjal í hendur þar sem ótvírætt komi fram að kaupin séu gerð við listamanninn. Milli – göngumaður má ekki tilgreina eða gefa til kynna á söluskjali sem kaupandi fær í hendur að hann sé seljandi. Tilgreina skal nöfn og kennitölur listamanns, milligöngumanns og kaupanda í söluskjölum.

Samningur aðila er bókhaldsgagn milligöngumanns og skal ásamt afriti sölureiknings vera til sönnunar því að sala hafi farið fram í nafni og fyrir reikning listamanns.

Skattskylda söluþóknunar.

Milligöngumaður um viðskipti, þ.e. aðili sem kemur fram við sölu í nafni annars manns og fyrir reikning hans, skal innheimta og skila virðisaukaskatti af söluþóknun sinni. Gildir þetta m.a. um listaverkasala, gallerí o.fl. sem hafa milligöngu um sölu listaverka, sbr. hér að ofan. Söluþjónusta af þessu tagi er skattskyld samkvæmt meginreglu 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga og undanþáguákvæði 2. tölul. 4. gr. tekur ekki til þessara aðila. Þó eru uppboðshaldarar undanþegnir skattskyldu, sjá nánar síðar.

Milligöngumaður skal gera viðkomandi listamanni reikning fyrir söluþjónustuna í því formi sem almennar reglur laga og reglugerða um virðisaukaskatt mæla fyrir um. Í þeim skjölum (kvittunum) sem kaupandi fær í hendur mega ekki koma fram upplýsingar um virðisaukaskatt.

Sala í nafni eða fyrir reikning listaverkasala (gallerís).

Undanþáguákvæði 2. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga tekur ekki til eigin sölu listaverkasala, þ.e. sölu hans á listaverkum í eigin nafni eða fyrir eigin reikning, enda er hér ekki um að ræða milligöngu um sölu, heldur almenna vörusölu. Það leiðir af almennum reglum laganna að sá sem stundar viðskipti í atvinnuskyni með listaverk án þess að vera höfundur þeirra skal innheimta og skila virðisaukaskatti af heildarsöluverði eða heildarandvirði slíkrar sölu. Þetta gildir einnig þótt listaverkasali hafi jafnframt með höndum milligöngu um sölu listaverka.

Listmunauppboð.

Samkvæmt 2. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga eru uppboðshaldarar undanþegnir skyldu til að innheimta og skila virðisaukaskatti af listaverkum sem falla í tollskrárnúmer 9701.1000 til 9703.0000 við sölu þeirra á listmunauppboðum. Með listmunauppboðum er átt við uppboð sem haldin eru samkvæmt lögum nr. 36/1987. Undanþágan gildir óháð því hvort höfundur viðkomandi verks eða annar aðili er seljandi. Undanþágan tekur einnig til þóknunar uppboðshaldara.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.