Dagsetning                       Tilvísun
21. maí 1991                             273/91

 

Virðisaukaskattur af starfsemi eignarleigufyrirtækja.

Með bréfi yðar, dags. 13. mars 1990, er leitað eftir afstöðu ríkisskattstjóra til nokkurra atriða varðandi starfsemi eignarleigufyrirtækja, m.a. atriða er snerta fjármögnunarleigusamninga sem gerðir voru fyrir l. janúar 1990.

Til svars erindinu vill ríkisskattstjóri taka fram eftirfarandi.

l.0 ALMENNT

Samkvæmt ákvæði I til bráðabirgða í lögum um virðisaukaskatt eru fjármögnunarleigusamningar, sem gerðir voru fyrir 1. janúar 1990, undanþegnir virðisaukaskatti. Ríkisskattstjóri lítur svo á að þrátt fyrir orðalag ákvæðisins sé hér um að ræða sambærilega undanþágu og kveðið er á um í 12. gr. laganna, þ.e. sölu sem undanþegin er skattskyldri veltu. Starfsemin er þannig tæknilega séð innan skattskyldusviðs laganna. Er samkvæmt því heimilt að telja virðisaukaskatt af kaupum aðfanga til þessarar starfsemi til innskatts.

2.0 GILDISSVIÐ UNDANÞÁGU OG SKATTVERÐ SKATTSKYLDRAR STARFSEMI

2.1 Fjármögnunarleigusamningar

Með vísan til 7. gr. vskl. er það álit ríkisskattstjóra að innheimta skuli virðisaukaskatt af heildarfjárhæð reikninga, vegna fjármögnunarleigusamninga sem gerðir eru eftir l. janúar 1990, þ.m.t. af lántökugjaldi, innheimtugjaldi og yfirfærslugjaldi vegna samninga í erlendri mynt. Á sama hátt er rétt að telja eldri fjármögnunarleigusamninga undanþegna að fullu, þar með talið innheimtugjald og yfirfærslugjald sem er hið sama eða sambærilegt við það sem greitt er til banka.

2.2 Fjárfestingarlán

Fjárfestingarlán eru utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga, sbr.10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Þar af leiðir að virðisaukaskattur leggst ekki á afborganir, vexti og lántöku- og innheimtukostnað sem sambærilegur er við gjaldtöku banka.

2.3 Kaupleigusamningar

Að áliti ríkisskattstjóra ber að líta á greiðslur samkvæmt kaupleigusamningum á sama hátt og afborganir í almennum afborgunarviðskiptum. Virðisaukaskattur reiknast við afhendingu hins selda frá eignarleigufyrirtæki til kaupanda en leggst hins vegar ekki á einstakar afborganir.

Almennt leiðir af 7. gr. virðisaukaskattslaga að telja ber til skattverðs allar greiðslur sem seljandi krefur kaupanda um sem skilyrði fyrir afborgunarsölu, aðrar en eiginlega vexti. Sem dæmi um kostnað sem telst til skattverðs samkvæmt þessum reglum er lántökukostnaður sem seljandi krefur um vegna væntanlegra þjónustugjalda bankastofnunar o.fl. Sama gildir um innheimtuþóknun sem rennur til seljanda vegna ósérgreinds kostnaðar hans við lánssöluna.

Vextir, jafnt almennir vextir sem dráttarvextir, og verðbætur, sem til falla eftir afhendingu, eru utan skattverðs, enda sé sérstaklega tilgreint í kaupsamningi hver vaxta- og verðbótagreiðsla sé hverju sinni, sbr. 6. tölul. 2. mgr. 7. gr. virðisaukaskattslaga. Að mati ríkisskattstjóra verður að skýra þetta ákvæði þannig að átt sé við greiðslur vegna raunverulegs skuldarsambands aðila. Skilyrði ákvæðisins um sérstaka tilgreiningu vaxta og verðbóta hverju sinni þykir bera að skilja þannig að fram komi gagnvart greiðanda hver vaxta- og verðbótagreiðsla sé af einstökum afborgunum.

Samkvæmt framangreindu verða eftirfarandi skilyrði að vera uppfyllt til að heimilt sé að halda vöxtum og verðbótum fyrir utan skattverð í afborgunarviðskiptum:

a) Vextir og verðbætur reiknist aðeins af þeim hluta kaupverðs sem í skuld er hverju sinni og falli niður séu eftirstöðvar skuldarinnar greiddar upp, og

b) fram komi á einstökum greiðslukvittunum eða í kaupsamningi (þ.m.t. viðauka hans, svo sem vaxtatöflu) hversu vaxta- og verðbótagreiðsla sé stór hluti einstakra heildarafborgana, annaðhvort þannig að hlutfall vaxta sé tilgreint af einstökum afborgunum eða tilgreint hver fjárhæð vaxta og verðbóta sé hverju sinni.

3.0 BREYTINGAR Á SAMNINGUM SEM GERÐIR VORU FYRIR 1. JANÚAR 1990

Í bréfi yðar kemur fram að samningar um fjármögnunarleigu eru gerðir til langs tíma, þ.e. 3-7 ára og á þeim tíma geti komið upp aðstæður sem valda því að leigutaki þurfi að fá samningi breytt eða jafnvel að fá að losa sig undan samningi með þeim hætti að finna sjálfur nýjan leigutaka sem leigusali getur sætt sig við.

Það er álit ríkisskattstjóra að skilmálabreytingar á eldri fjármögnunarleigusamningum, þ.e. breyting á greiðsluröð, lenging eða stytting þeirra, hafi ekki áhrif á undanþágu leigugreiðslna. Sama máli gegnir ef nýr leigutaki yfirtekur samning, enda hafi upphaflegur samningur verið gerður fyrir árslok 1989 og hið leigða verið óslitið í eigu eignarleigufélagsins. Skilyrði er að samningi við nýjan leigutaka fylgi ekki önnur þjónusta eða annar búnaður en samningur við upphaflegan leigutaka tók til.

4.0 LOKAVERÐ Í SAMNINGUM

Formlegt söluverð á tækjum (leigumunum), sem hafa verið leigðir á fjármögnunarleigu, er í öllum tilvikum skattskylt. Skattverð miðast við heildarendurgjald fyrir söluhlut, sbr. nánar reglur 7. gr. virðisaukaskattslaga. Söluverð er að sjálfsögðu háð samningum milli aðila í einstökum tilvikum og ríkisskattstjóra er ljóst að oft getur söluverð til leigutaka í lok leigutíma verið lægra en markaðsverð samskonar eða sambærilegra tækja.

Sé samningi rift og tæki selt frjálsri sölu er söluverðið skattskylt á sama hátt og lokaverð.

Öðru máli gegnir hins vegar varðandi umsamda lokagreiðslu eða lokagjald „leigutaka“ samkvæmt kaupleigusamningi. Það er ekki söluverð þar sem sala telst hafa farið fram strax í upphafi kaupleigusamnings og virðisaukaskatti þá skilað af samningsfjárhæðinni í heild. Sé kaupleigusamningi hins vegar rift og hið leigða selt frjálsri sölu er söluverðið skattskylt.

5.0 ÚTLAGÐUR KOSTNAÐUR O.FL.

Það leiðir af 2. tölul. 2. mgr. 7. gr. virðisaukaskattslaga að vátryggingar, þungaskattur, skoðunargjöld og annar þess háttar kostnaður vegna leigumunar, sem leigusali krefur leigutaka um, er hluti skattverðs.

Kostnaður af ofangreindu tagi vegna viðskipta sem undanþegin eru skattskyldri veltu, svo sem fjármögnunarleigusamninga frá því fyrir 1. janúar 1990 og leigugreiðslan vegna loftfara og skipa, er undanþeginn skattskyldri veltu á sama hátt og leigugreiðslunar.

6.0 LÖGFRÆÐILEG INNHEIMTA

Um greiðslu virðisaukaskatts vegna starfa lögfræðinga (launamanna) við innheimtu krafna í eigu fyrirtækis gilda mismunandi reglur eftir því hvort krafan hefur stofnast vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi eða ekki:

a) Eignarleigufyrirtækjum sem hafa lögfræðimenntaða starfsmenn í þjónustu sinni til innheimtu eigin vanskilakrafna ber að greiða virðisaukaskatt af störfum þeirra að því leyti sem kröfur þessar eru vegna starfsemi sem er utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga (fjárfestingarlán), sbr. reglugerð nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana. Um útreikning skattsins vísast til reglugerðarinnar.

b) Störf eigin lögfræðinga vegna innheimtu krafna sem stafa frá starfsemi sem er innan skattskyldusviðs fela hins vegar ekki í sér skyldu til að greiða virðisaukaskatt. Fjármögnunarleiga er innan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga, og eins og áður hefur komið fram gildir það að áliti ríkisskattstjóra jafnt um eldri sem yngri samninga á þessu sviði. Með því að litið er á kaupleigu sem eina tegund vörusölu gildir hið sama um kröfur sem stafa frá slíkum samningum.

7.0 SKAÐABÆTUR VEGNA TJÓNS Á LEIGUMUNUM

Fengnar skaðabætur frá tryggingarfélagi eða tjónvaldi vegna tjóns á leigumun, einnig vegna altjóns, teljast ekki til skattskyldrar veltu eignarleigufélaga, enda verður ekki talið að þær séu greiðsla fyrir skattskylda afhendingu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.