Dagsetning Tilvísun
22. júlí 1991 306/91
Virðisaukaskattur – útgáfustarfsemi o.fl.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 22. ágúst 1990, varðandi virðisaukaskatt af blaðinu B sem gefið er út til fjáröflunar fyrir samnefnd samtök. Jafnframt er spurt um virðisaukaskatt af aðgangseyri að tónleikum.
Ríkisskattstjóri hefur nú gefið út leiðbeiningar um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi. Fylgja þær bréfi þessu. Í kafla 2.3 er sérstaklega fjallað um útgáfustarfsemi félagasamtaka.
Eins og útgáfustarfsemi yðar er lýst er það álit ríkisskattstjóra að hún sé skráningarskyld, sbr. kafla 2.3, b-lið, í nefndum leiðbeiningum. Þó er starfsemin ekki skráningarskyld ef samtals tekjur af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu, þ.m.t. tekjur af auglýsingum og sölu ritsins, eru lægri en 172.300 kr. á ári. Skráning veldur því að útgefanda ber að innheimta virðisaukaskatt af sölu auglýsinga. Hann hefur jafnframt rétt til frádráttar innskatts eftir því sem nánar segir í kafla 5.1 í leiðbeiningunum.
Aðgangseyrir að tónleikum er utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga, sbr. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Því er ekki lagður virðisaukaskattur á þá sölu, en virðisaukaskattur af aðföngum við tónleika fæst ekki frádreginn sem innskattur.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.