Dagsetning Tilvísun
22. júlí 1991 316/91
Virðisaukaskattur – útgáfustarfsemi, námskeið.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 14. febrúar 1990, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna (a) útgáfustarfsemi félagsins og (b) eftirmenntunarnámskeiða sem félagið heldur ásamt B fyrir C og aðra sem vinna í X.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
Um útgáfustarfsemi félagsins.
Samkvæmt því sem fram kemur i erindinu gefur félagið út tvenns konar fréttarit, F og Y. Hið fyrrnefnda flytur félagsmönnum upplýsingar faglegs eðlis, en hið síðarnefnda flytur fréttir af innra starfi félagsins. Ekki er greitt sérstakt gjald fyrir nefnd rit, heldur er það innifalið á félagsgjaldi.
Ríkisskattstjóri hefur gefið út leiðbeiningar um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi og fylgja þær hjálagðar. Eins og fram kemur í kafla 2.3 í leiðbeiningunum eru félagasamtök talin undanþegin skráningarskyldu vegna varanlegrar og reglulegrar útgáfustarfsemi sinnar ef sérstakar tekjur af útgáfunni (sölutekjur og auglýsingatekjur) nema ekki útgáfukostnaði.
Að áliti ríkisskattstjóra getur útgáfa umræddra fréttarita ekki talist skráningarskyld starfsemi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Útgáfa þeirra virðist þáttur í almennri starfsemi félagsins og ekki verður séð að sérstök sjónarmið um útgáfustarfsemi félagasamtaka, sem rakin eru í leiðbeiningum ríkisskattstjóra (kafla 2.3, a-liður), eigi við um útgáfuna.
Samkvæmt framansögðu getur ekki komið til endurgreiðslu virðisaukaskatts af útgáfukostnaði fréttaritanna.
Eftirmenntunarnámskeið.
Undanþáguákvæði 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, sem kveður svo á að rekstur skóla og menntastofnana sé undanþegin virðisaukaskattsskyldu, er túlkað svo að það taki til fagmenntunar, þ.m.t. endurmenntunar, sem miðar að því að viðhalda eða auka þekkingu eingöngu vegna atvinnu þeirra sem njóta kennslunnar. Eftirmenntunarnámskeið F og B virðist falla í þennan undanþáguflokk. Af undanþágunni leiðir að ekki er innheimtur virðisaukaskattur af námskeiðsgjöldum, en hins vegar fæst ekki endurgreiddur virðisaukaskattur af aðföngum við hina undanþegnu starfsemi.
Námsefni.
Um meðferð virðisaukaskatts af námsefni fer eftir þeim reglum og sjónarmiðum sem fram koma í meðfylgjandi leiðbeiningum um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.