Dagsetning                       Tilvísun
6. sept. 1991                             329/91

 

Virðisaukaskattur – erlent flugfélag.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. febrúar sl., þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því að hvaða leyti umboðsskrifstofa erlends flugfélags fái endurgreiddan virðisaukaskatt vegna aðfanga sinna, sem einkum eru:

a) Reksturskostnaður skrifstofu, svo sem sími, telex og tölvubúnaður.

b) Kostnaður vegna seinkana á flugi, t.d. skattur af aðkeyptri þjónustu, mat og símakostnaði vegna farþega.

c) Sams konar kostnaður og greinir í b) vegna flugáhafna og annarra starfsmanna félagsins sem hafa viðdvöl hér á landi, hvort heldur um seinkanir er að ræða eða ekki.

Starfsemi skrifstofunnar felst einkum í þjónustu við farþega og flugáhafnir félagsins vegna millilendinga flugvéla þess hér á landi á leið milli erlendra áfangastaða. Samkvæmt upplýsingum forstöðumanns hefur skrifstofan lítilsháttar eigin tekjur af farmiðasölu. Að öðru leyti er ofangreindur kostnaðar greiddur af móðurfélaginu sjálfu.

Til svars erindinu tekur ríkisskattstjóri fram að fólksflutningar eru undanþegnir virðisaukaskatti, sbr. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Því eru flugfélög ekki skráningarskyld samkvæmt lögunum vegna þeirrar starfsemi og fá ekki endurgreiddan virðisaukaskatt af aðföngum vegna hennar.

Tekið skal fram að þótt fyrirtækið væri skráð væri ekki heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna alls þess kostnaðar sem að ofan greinir, t.d. er virðisaukaskattur vegna fæðiskaupa ekki endurgreiddur, sbr. l. tölul. 3. mgr. 16 gr.

Vegna athugasemda í bréfi yðar um meðferð virðisaukaskatts af umboðsskrifstofum erlenda flugfélaga í D skal tekið fram að í d lögum um virðisaukaskatt er sérstakt ákvæði um endurgreiðslu virðisaukaskatts af ýmsum kostnaði til fyrirtækja sem hafa með höndum farþegaflutninga milli landa. Sambærilegt ákvæði er ekki í íslenskum lögum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.