Dagsetning Tilvísun
6. sept. 1991 333/91
Meðferð virðisaukaskatts þegar viðskiptakröfur eru gefnar eftir að hluta vegna nauðasamninga.
Með bréfi yðar, dags. 13. desember 1990, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvernig skráður aðili skuli fara með virðisaukaskatt þegar hann fær gefinn eftir hluta af skuldum sínum (almennum viðskiptaskuldum, víxilskuldum og skuldabréfum) með nauðasamningi við kröfuhafa. Að hluta til er skuldin vegna viðskipta frá því fyrir gildistöku laga um virðisaukaskatt. Er sérstaklega spurt um eftirfarandi atriði:
(1) Hvort kröfuhafa, sem með nauðasamningi gefur eftir skuld, beri að gefa út kreditnótu vegna lækkunar á höfuðstól skuldarinnar, og hvort máli skipti hvort um er að ræða almenna viðskiptakröfu eða viðskiptavíxil eða skuldabréf. Hvernig kröfuhafi fái útskatt endurgreiddan ef hann er ekki skyldur til útgáfu kreditnótu.
(2) Hvort skuldari skuli bakfæra hjá sér innskatt vegna skuldar sem hann fær gefna eftir, hvort máli skipti hvort kröfuhafi gerir kreditnótu vegna lækkunarinnar og hvort heimilt sé að halda dráttarvöxtum sérstaklega.
Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga um virðisaukaskatt (vskl.) er skráðum aðila heimilt að draga frá skattskyldri veltu að 80,32 hundraðshlutum tapaðar útistandandi viðskiptaskuldir vegna sölu sem áður hefur verið talin til skattskyldrar veltu. Þá má draga frá skattskyldri veltu 80% tapaðrar fjárhæðar vegna krafna sem stafa frá viðskiptum er skattskyld voru samkvæmt söluskattslögum, sbr. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I. Ekki verður séð að máli skipti hvort um er að ræða almenna viðskiptakröfu eða viðskiptabréfskröfu, enda sé hún að stofni til vegna sölu sem áður hefur verið talin til skattskyldrar veltu.
Til frádráttar má aðeins telja þá fjárhæð sem varðar skattskylda afhendingu á vöru eða þjónustu. Þannig er ekki heimilt að telja afskrifaða vexti af viðskiptaskuld til frádráttar skattskyldri veltu.
Það er skilyrði fyrir leiðréttingu á skattskyldri veltu vegna tapaðra krafna að skuld sé sannanlega töpuð og að skýrt komi fram í bókhaldsgögnum á hverju það sé byggt að telja útistandandi viðskiptaskuld tapaða og hvað hafi verið aðhafst til að innheimta skuld. Nauðasamningur sem samþykktur hefur verið með bindandi hætti af nægilegum hluta kröfuhafa og staðfestur af skiptaráðanda, sbr. lög nr. 19/1924, er nægileg sönnun í þessu sambandi. Hins vegar er ekki skilyrði fyrir leiðréttingu að kröfuhafi gefi út kreditreikning eða geri skuldara að öðru leyti .viðvart um að hann hafi afskrifað skuld. Engin skylda hvílir á skuldara um að leiðrétta innskattsfrádrátt sinn þegar krafa á hendur honum er afskrifuð samkvæmt þessu lagaákvæði.
Það skal tekið fram að samningar um eftirgjöf skuldar sem ekki teljast samþykktir og staðfestir nauðasamningar skv. lögum nr. 19/1924, t.d. samningar skuldara við einstaka kröfuhafa án atbeina skiptaréttar, geta að áliti ríkisskattstjóra ekki fallið undir 2. tölul. 4. mgr. 13. gr. vskl. Um samninga af þessu tagi fer skv. 3. tölul. sömu málsgreinar, þ.e. samkvæmt reglum um afslátt frá kaupverði eftir að afhending hefur átt sér stað. Þar er m.a. skilyrði fyrir leiðréttingu á skattskyldri veltu að gefinn sé út kreditreikningur fyrir afslættinum. Í því felst jafnframt að skuldara er skylt að leiðrétta innskatt sinn um þann virðisaukaskatt sem fram kemur á kreditreikningi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.