Dagsetning                       Tilvísun
6. sept. 1991                             335/91

 

Virðisaukaskattsskylda Í.

Með bréfi yðar, dags. 27. október 1989, er þess óskað að ríkisskattstjóri láti í ljósi álit sitt á því hvort Í sé skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Í erindinu kemur fram að I sé rekin á styrkjum úr sjóðum T, frá ríkinu og einstaka fyrirtækjum. Þá segir að engin útgáfa á vegum I standi undir sér og að miðstöðin sé rekin sem „non-profit“ stofnun.

Starfsemin er sögð felast i tónlistarbókasafni og útgáfu og sölu á kynningarritum, nótum og hljóðritunum með íslenskri tónlist.

Eins og fram kemur í meðfylgjandi leiðbeiningum ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi er útgáfa bóka, tímarita og annarra rita skráningarskyld starfsemi ef útgáfan er talin vera í atvinnuskyni. Þó er starfsemin ekki skráningarskyld ef samanlagðar tekjur útgefanda af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu, þ.m.t. tekjur af auglýsingum og sölu ritsins, eru lægri en 172.300 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1991).

Við mat á því hvenær útgáfa telst vera í atvinnuskyni er aðallega miðað við það hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri eða ekki.

Útgáfa telst ekki vera í atvinnuskyni ef samanlagðar auglýsingatekjur og tekjur af sölu eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til útgáfunnar, þ.m.t. prentkostnaður. Gefi aðili út fleiri en eitt rit er miðað við heildarafkomu fyrirtækisins.

Starfsemi sem ekki uppfyllir skilyrðið um hagnað af rekstri er ekki skráningarskylt. Í því felst jafnframt að aðilar sem ekki verða taldir gefa út rit í atvinnuskyni eiga ekki rétt á skráningu.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í bréfi yðar um að starfsemi I sé ekki rekin í hagnaðarskyni og að útgáfa hennar standi almennt ekki undir sér er það álit ríkisskattstjóra að I sé ekki skráningarskyld vegna útgáfu sinnar á nótum og hljóðritunum.

Starfsemi safna er undanþegin virðisaukaskattsskyldu og skráningarskyldu, sbr. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga, og tekur undanþágan að áliti ríkisskattstjóra einnig til sölu ljósrita á gögnum í vörslu safns. Þeir sem ekki eru skráningarskyldir innheimta hvorki virðisaukaskatt af sölu sinni né hafa rétt til endurgreiðslu innskatts af aðföngum. Þeir eru utan virðisaukaskattskerfisins og bera sjálfir þann virðisaukaskatt sem þeir greiða vegna aðfanga sinna.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.