Dagsetning Tilvísun
6. sept. 1991 337/91
Virðisaukaskattur – Frjáls skráning.
Með bréfi yðar, dags. 3. febrúar 1990, er þeirri spurningu beint til ríkisskattstjóra hvaða áhrif það hafi fyrir skattaðila með tilliti til leiðréttingar á innskatti ef hann selur fasteign, sem frjáls skráning hefur tekið til, innan tveggja ára frá því hann fékk þá skráningu. Spurt er um eftirtalin tilvik:
a) Skattaðili selur fasteignina til annars aðila sem leigir hana áfram.
b) Skattaðili selur fasteignina til aðila sem notar hana við virðisaukaskattsskylda atvinnustarfsemi (ekki til útleigu).
c) Skattaðili selur fasteignina til aðila sem notar hana vegna starfsemi sem ekki er virðisaukaskattsskyld (og ekki til útleigu).
Ákvæði um leiðréttingu innskatts er að finna í IV. kafla reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt. Samkvæmt þeim skal skattaðili, sem notið hefur innskattsfrádráttar yfir ákveðnu marki vegna nýbyggingar, endurbóta eða viðhalds fasteignar, leiðrétta innskattinn ef hann selur eignina, leigir hana út eða tekur hana til annarrar notkunar sem ekki hefur i för með sér frádráttarrétt. Útleiga veldur þó ekki skyldu til leiðréttingar ef aðili fær frjálsa skráningu vegna útleigunnar (1. tölul. 13. gr.).
Leiðréttingarskylda gildir vegna fasteigna í tíu ár talið frá og með því ári þegar frádráttur innskatts fór fram, þó þannig að leiðréttingarhlutfall lækkar árlega, sbr. nánar 14. gr. reglugerðarinnar.
Samkvæmt þessum reglum er leigusali sem skráður er frjálsri skráningu vegna útleigu fasteignar skyldur til að leiðrétta innskatt vegna byggingar o.s.frv. ef skráningin fellur niður innan tíu ára frá því frádráttur innskatts fór fram, t.d. ef eignin er seld innan þessa tíma.
Bent skal á að skv. 15. gr. reglugerðarinnar er kaupanda heimilað að yfirtaka leiðréttingarskyldu að því leyti sem hann hefur frádráttarrétt vegna eignarinnar. Ríkisskattstjóri lítur svo á að þetta ákvæði geti bæði átt við þegar eign er seld skráðum aðila sem notar hana fyrir starfsemi sem skattskyld er samkvæmt almennum ákvæðum virðisaukaskattslaga og þegar skattskylda kaupanda byggist á því að hann er skráður frjálsri skráningu vegna útleigu viðkomandi eignar.
Reglur um yfirtöku leiðréttingarskyldu geta átt við í þeim tilvikum sem greind eru f a- og b-liðum fyrirspurnar yðar að því leyti sem kaupandi hefur frádráttarrétt vegna eignarinnar. Nauðsynlegt er að kaupandi lýsi því skriflega yfir við seljanda að hann yfirtaki leiðréttingarskylduna og skilyrði er að aðilar fullnægi tilkynningarskyldu skv. 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar.
Ekki er heimild til yfirtöku leiðréttingar í því dæmi sem greint er í c-lið fyrirspurnarinnar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.