Dagsetning Tilvísun
6. sept. 1991 338/91
Virðisaukaskattur – þjónusta tryggingastærðfræðings
Með bréfi yðar, dags. 18. janúar 1991, er óskað nánari skýringa ríkisskattstjóra á þeirri túlkun og áliti sem fram kemur í bréfi embættisins, dags. 14. janúar 1991, að tryggingastærðfræðingi beri að innheimta og skila virðisaukaskatti af vinnu sinni við útreikning á örorkutjónum.
Eins og fram kemur í nefndu bréfi ríkisskattstjóra hefur verið litið svo á að vinna sjálfstætt starfandi aðila við matsstörf til ákvörðunar vátryggingarfjárhæðar eða vátryggingarbóta sé undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt þegar slík vinna er seld vátryggingafélagi. Er hér m.a. byggt á því að matsstörf af þessu tagi verði að teljast nauðsynlegur þáttur í vátryggingarstarfsemi og þau eru einnig almennt innt af hendi til eigin nota innan vátryggingafélaganna sjálfra.
Sú starfsemi tryggingastærðfræðings sem lýtur að útreikningi fjártjóns slasaðs manns uppfyllir að áliti ríkisskattstjóra ekki nema að hluta þau skilyrði sem felast í framanrituðu. Fyrir það fyrsta felst starfsemin, eftir því sem best verður séð, í stærðfræðilegum útreikningi en ekki mati á örorku hins slasaða. Matið er hér í höndum læknis sem lætur uppi örorkumat. Í öðru lagi virðist tryggingastærðfræðilegur útreikningur almennt ekki inntur af hendi innan vátryggingafélaganna sjálfra. Í þriðja lagi er fram komið að þjónusta þessa sérfræðings er í fæstum tilvikum seld vátryggingafélagi beint.
Ríkisskattstjóri ítrekar þá meginreglu sem fram kemur í 4. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga að undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laganna taka ekki til aðfanga þeirra sem hafa með höndum undanþegna starfsemi. Ríkisskattstjóri lítur svo á að þessi meginregla gildi um þá starfsemi tryggingastærðfræðinga sem hér um ræðir.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson