Dagsetning                       Tilvísun
6. sept. 1991                             341/91

 

Virðisaukaskattur – skattverð – umbúðir.

Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram um virðisaukaskatt af umbúðakostnaði:

Umbúðir sem seldar eru ásamt vöru.

Umbúðakostnaður, sem innifalinn er í verði vöru eða seljandi krefur kaupanda sérstaklega um, telst til skattverðs viðkomandi vöru, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 7. gr. virðisaukaskattslaga.

Umbúðakostnaður telst ekki til skattverðs ef kaupandi leggur til umbúðir.

Umbúðir sem seljandi leigir kaupanda.

Ef umbúðirnar eru leigðar kaupanda skal seljandi innheimta virðisaukaskatt af leigugjaldinu eftir almennum reglum virðisaukaskattslaga, en leiga lausafjármuna er skattskyld samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. laganna.

Umbúðir sem seljandi lánar kaupanda gegn tryggingu.

Algengt er í sumum viðskiptum, t.d. í verslun með gosdrykki, að seljandi láni umbúðir gegn tryggingu. Ríkisskattstjóri lítur svo á að skili kaupandi ekki umbúðum sé um að ræða skattskylda afhendingu í skilningi virðisaukaskattslaga. Því skal seljandi telja tryggingarfé, sem ekki er endurgreitt kaupanda, til skattskyldrar veltu.

Framkvæmd á uppgjöri virðisaukaskatts vegna þessara umbúða getur verið á annan hvorn eftirfarandi hátt:

a) Seljandi getur talið tryggingarféð til skattskyldrar veltu (reiknað það inn í skattverð viðkomandi vöru) við sölu vörunnar, en leiðrétt skattskylda veltu sína um endurgreitt tryggingarfé á því uppgjörstímabili þegar umbúðunum er skilað. Seljandi skal gefa út kreditreikning vegna skilaðra umbúða, sbr. 3. mgr. 20. gr. virðisaukaskattslaga. Smásöluverslanir eru undanþegnar skyldu til reikningsútgáfu nema þegar um er að ræða viðskipti við skráða aðila, sbr. l. mgr. 21. gr. laganna.

b) Seljandi getur haldið sérstakt bókhald vegna tryggingarfjárins þannig að til skattskyldrar veltu sé aðeins talið það tryggingarfé sem ekki hefur verið endurgreitt við lok hvers uppgjörstímabils. Smásöluverslun sem notar þessa aðferð og skráir tekjur sínar í sjóðvél skal skrá inn- og útborganir vegna tryggingarfjárins í sérstakan teljara í sjóðvél. Seljandi sem skyldugur er til að gefa út sölureikning vegna sölu sinnar skal gera kaupanda sérstakan reikning vegna umbúða sem ekki er skilað.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.