Dagsetning Tilvísun
12. sept. 1991 344/91
Virðisaukaskattur – skógrækt.
Með bréfi yðar, dags. 24. apríl 1991, er gerð grein fyrir skógrækt sem þér og aðrir eigendur jarðar í S í B hafið ráðist í. Fram kemur í gögnum málsins að árið 1987 samþykkti X jörðina sem skógræktarbýli og árið 1990 gerðu landeigendur og Skógrækt ríkisins með sér samning um nytjaskógrækt, sbr. lög nr. 76/1984. Í samningnum felst að landeigendur taka til skógræktar 82 ha lands og greiða 20% kostnaðar við skógræktarframkvæmdirnar en Skógræktin greiðir 80% kostnaðar. Þá kemur fram í erindinu að ekki er búist við að búskapurinn skili arði fyrr en eftir allmörg ár.
Er þeirri fyrirspurn beint til ríkisskattstjóra hvort virðisaukaskattur fáist endurgreiddur vegna lagningar raflagnar frá. veitusvæði RARIK og af tækjum við starfsemina, s.s. dráttarvélum.
Ríkisskattstjóri hefur sett skattstjórum starfsreglur um meðferð virðisaukaskatts þeirra aðila sem stunda skógrækt, sjá hjálagt bréf til skattstjóra, dags. 6. þ.m. Eins og þar kemur fram er það afstaða ríkisskattstjóra að þeir sem ekki hafa a.m.k. eitt undanfarandi ár haft tekjur umfram gjöld af skógrækt sinni skuli ekki skráðir samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Óskráðir aðilar innheimta ekki virðisaukaskatt af sölu sinni, en hafa á hinn bóginn ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til starfsemi sinnar.
Samkvæmt framansögðu verður að svara erindi yðar á þann veg að ekki er unnt að endurgreiða virðisaukaskatt af kostnaði við skógrækt yðar að svo stöddu.
Ríkisskattstjóri vill sérstaklega geta þess að kostnaður við lagningu raflagnar að sveitabýli getur ekki talist að öllu leyti frádráttarbær rekstrarkostnaður við atvinnurekstur nema ótvírætt sé að rafmagnið sé ekki að neinu leyti til einkanota. Ekki má telja til innskatts virðisaukaskatt af kostnaði við öflun eða rekstur íbúðarhúsnæðis fyrir eigenda eða starfsmenn.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.