Dagsetning Tilvísun
13. nóvember 1996 759/96
Ársskil – virðisaukaskattur
Vísað er til bréfs yðar, dags. 13. september 1996, sem fjallar um ársskil virðisauka- skatts.
Í bréfinu segir frá umbjóðanda yðar sem lagði í framkvæmdir við breytingar á húsnæði á árinu 1995. Innskattur fékkst greiddur það ár, en í ársbyrjun 1996 var félagið sett í ársskil þar sem skattskyld velta þess á tveim árum þar á undan (þ.e. árin 1994 og 1995) var undir kr. 800.000 hvort ár. Við það stöðvuðust greiðslur á innskatti til félagsins. Nú hefur félagið gert leigusamning um húsnæðið og leigir það með virðisaukaskatti. Skattskyld velta ársins 1996 nær ekki kr. 800.000 en hins vegar er ljóst að velta ársins 1997 mun verða hærri.
Þar sem það kemur sér mjög illa fyrir umbjóðanda yðar að fá ekki innskatt ársins 1996 greiddan fyrr en á árinu 1997, óskið þér álits ríkisskattstjóra á því, hvort unnt sé að gera einhverja undanþágu á reglum um uppgjörstímabil (ársskil) í tilviki sem þessu eða hvort einhverjar aðrar leiðir séu færar til að leysa þetta mál.
Til svars erindinu skal tekið fram að í reglugerð nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, er ekki gert ráð fyrir neinum undantekningum frá framangreindri reglu. Því getur ríkisskattstjóri ekki bent á neinar leiðir til lausnar þessu máli aðrar en að bíða eftir því að skattskyld velta á ársgrundvelli nái kr. 800.000.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.