Dagsetning                       Tilvísun
4. feb. 1991                             229/91

 

Bráðabirgðauppgjör virðisaukaskatts vegna hráefniskaupa fiskvinnslufyrirtækja.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 12. janúar 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort hægt sé að fá innskatt endurgreiddan með vikulegri bráðabirgðaskýrslu, sbr. reglug. nr. 563/1989, vegna niðursuðu og niðurlagningar tiltekinna sjávarafurða. Framleiðslunni er lýst þannig:

  1. Niðursuða á lifur og lýsisframleiðsla. Hráefnið er lifur frá útgerðum eða vinnslustöðvum.
  2. Niðurlögð þorskhrogn. Hráefni er fersk eða söltuð þorskhrogn frá útgerðum eða vinnslustöðvum.
  3. Niðursoðin rækja. Hráefni er skelflett rækja frá vinnslustöð.
  4. Niðursoðinn eða niðurlagður sjólax. Hráefni er saltaður ufsi frá vinnslustöð.

Til svars erindinu og almennt til skýringar á reglug. nr. 563/1989 vísast til bréfs ríkisskattstjóra, dags. 30. janúar 1990, til allra skattstjóra. Þar segir í 4. lið að með hugtakinu „hráefni til fiskvinnslu“ sé einkum átt við ferskan fisk; óslægðan eða slægðan. Telja verður slógið (innyflin) sem hráefni til fiskvinnslu ef það er keypt sérstaklega, enda sé það ferskt og að öðru leyti óunnið. Samkvæmt framansögðu fellur lifur, sbr. 1. lið hér að ofan, og fersk þorskhrogn, sbr. 2. lið, undir hugtakið hráefni til fiskvinnslu í skilningi reglugerðarinnar, enda er þetta hráefni keypt ferskt. Ekki má færa á bráðabirgðaskýrslu innskatt vegna kaupa á fiski sem hefur verið saltaður eða unninn á annan hátt.

Niðursuða og niðurlagning sjávarafurða er fiskvinnsla í skilningi reglug. nr. 563/1989.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.