Dagsetning                       Tilvísun
12. okt. 1990                            150/90

 

Dreifibréf til sláturleyfishafa

Embætti ríkisskattstjóra hafa borist fyrirspurnir frá nokkrum sláturleyfishöfum um það hvernig fara skuli með innlegg samrekstraraðila, t.d. félagsbúa eða foreldra og ófjárráða barna þeirra, í landbúnaði sem vilja fá innlegg skráð á sitt nafn.

I.

Meginreglan er sú að litið er á bú samrekstraraðila sem eina rekstrareiningu. Þetta gildir óháð því hvort félagsbú er rekið sem sjálfstæður skattaðili eða ekki. Afurðir þær sem lagðar eru inn til sláturleyfishafa eru afurðir búsins en ekki þeirra einstaklinga sem standa að rekstrinum. Meginreglan er því sú að innheimta skal virðisaukaskatt af öllum afurðum frá viðkomandi búi. Vegna sérstöðu þessarar starfsemi kemur fram krafa frá samrekstraraðilum um heimild til að fá hluta af afurðum búsins lagðar inn á sín nöfn en ekki á nafn þess sem skráður er fyrir rekstri búsins.

II.

Í virðisaukaskattskerfinu er einn aðili skráður forráðamaður félagsbús, sem ekki er sjálfstæður skattaðili. Til fróðleiks má geta þess að á tilkynningareyðublaði til skattstjóra, sem virðisaukaskattsskyldir aðilar eiga að skila, skal þó tilgreina nöfn, kennitölur og eignarhlutföll annarra samrekstraraðila. Í þessu sambandi skal bent á að standi hjón saman að búrekstrinum skal annað þeirra vera skráð fyrir starfseminni. Bú hjóna er skráð sem einstaklingsfyrirtæki og ekki þarf að tilkynna nafn maka á tilkynningareyðublaðinu til skattstjóra.

Á undanförnum árum hefur það tíðkast að innlegg eru skráð á nöfn einstakra samrekstraraðila jafnvel þótt um tekjur búsins sé að ræða. Vilji aðilar halda þessu fyrirkomulagi er hægt að hafa þann hátt á að tengja nafn og kennitölu þeirra við kennitölu og virðisaukaskattsnúmer forráðamanns búsins í undirskrá afurðastöðva.

Við útgáfu afreikninga til samrekstraraðila (félagsbúa eða foreldra og ófjárráða barna þeirra) skal ætíð koma fram nafn og kennitala forráðamanns búsins og virðisaukaskattsnúmer hans. Auk þess skal koma fram nafn og kennitala þess sem fær greiðslu ( s.s. félagsbús, sameigenda, eiginkonu, barna innan 16 ára). Athygli skal þó vakin á því að virðisaukaskatturinn skal gerður upp við þann sem skráður er fyrir rekstrinum, þ.e. forráðamann búsins og skal hann fá afrit eða yfirlit yfir þau innlegg sem hafa farið í gegnum skráningarnúmer hans.

III.

Varðandi innlegg barna eldri en 16 ára, sem ekki eru skráðir samrekstraraðilar að búi, skal ekki innheimta virðisaukaskatt ef viðkomandi nær ekki veltumörkum (þ.e 155.800 á ári). Sá aðili er ekki virðisaukaskattsskyldur og hefur því ekki virðisaukaskattsnúmer.

IV.

Afurðamiðar skulu skrifaðir á hvern þann sem hefur fengið greiðslu og skulu þeir innihalda sömu upplýsingar og greinir hér að ofan.

Jafnframt skal bent á nauðsyn þess að á afreikningi komi skýrt fram af hvaða fjárhæð virðisaukaskattur er reiknaður. Athygli skal og vakin á því að ekki er heimilt að draga frá skattverði (það verð sem virðisaukaskattur er reiknaður af) kostnað sem kaupandi (afurðastöð) krefur seljanda um eða á lögum samkvæmt að innheimta af honum, s.s. neytenda- og jöfnunargjald, búnaðarsjóðsgjald og lífeyrissjóðsgjald.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Jón Guðmundsson,
forstm. gjaldadeildar.