Skattstjóri Norðurlandsumdæmis vestra                                                 26 . nóvember 1999                                                                   Alm 34/99
b.t. Jóns Tryggva Jökulssonar
Túngötu 3
580 Siglufjörður

 

Efni: Blönduð starfsemi – veltureglan – færsla bókhalds, gerð ársreikninga og endurskoðun.

Vísað er til bréfs yðar dags. 21. október sl. en í því er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort kostnaður vegna færslu bókhalds sem og uppsetningar ársreiknings og endurskoðunar vegna starfsemi, sem bæði er virðisaukaskattsskyld og undanþegin skattskyldu, teljist vera sameiginlegur kostnaður, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, og því eigi að hlutfalla innskatt af þessum kostnaðarlið.

Það er álit ríkisskattsstjóra að þessi kostnaður teljist vera sameiginlegur kostnaður, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Ber því að hlutfalla innskatt í sama hlutfalli og sala á vöru og þjónustu (án virðisaukaskatts) er hluti af heildarveltu ársins. Við þennan útreikning skal ekki taka tillit til sölu rekstrarfjármuna, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Innan hvers reikningsárs má nota hlutfallstölu næstliðins reikningsárs við útreikning innskatts. Við skil vegna síðasta tímabils hvers árs skal fara fram afstemming á innskattsfrádrætti liðins árs. Á fyrsta ári virðisaukaskattsskyldrar starfsemi skal hlutfallstalan reiknuð til bráðabirgða fyrir hvert einstakt uppgjörstímabil, en endanlegt uppgjör skal fara fram við skil síðasta tímabils ársins.

Það er og álit ríkisskattstjóra að engu skipti hvort vinnuframlag við færslu bókhalds er mikið eða lítið miðað við hina skattskyldu starfsemi. Hlutfalla skal innskatt í sama hlutfalli og tekjur af virðisaukaskattsskyldri starfsemi eru hluti af heildartekjum viðkomandi rekstrarárs, sbr. 5. gr. tilvitnaðrar reglugerðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Gunnar Gunnarsson