Dagsetning                       Tilvísun
11. júní 1991                             277/91

 

Efni: Virðisaukaskattur – félagsmálaþjónusta.

Með bréfi yðar, dags. 29. mai sl., óskið þér álits ríkisskattstjóra á því hvort aðila sem tekur að sér „faglega ráðgjöf á sviði félagsmálaþjónustu“ fyrir sveitarfélag skuli innheimta og skila virðisaukaskatti af endurgjaldi fyrir þjónustu sína. Fram kemur í bréfinu að um sé að ræða fyrrverandi félagsmálastjóra sveitarfélagsins sem gert hefur samning við sveitarfélagið um að taka að sér ofangreind störf sem verktaki. Samkvæmt samningnum skal hann „sjá um þann kostnað sem þjónustan felur í sér og verður sá kostnaður falinn í endurgjaldi bæjarins“.

Að áliti ríkisskattstjóra er hér um að ræða þjónustu sem skattskyld er samkvæmt meginreglu laga um virðisaukaskatt um skattskyldu þjónustu, enda virðist ekkert undanþáguákvæði laganna geta tekið til starfseminnar. Tekið skal fram að ríkisskattstjóri túlkar 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga með hliðsjón af 4. mgr. sömu greinar þannig að ákvæðið taki aðeins til þjónustu sem látin er endanlegum neytanda í té, en ekki til aðfanga þess sem veitir félagslega þjónustu. því ber sjálfstætt starfandi aðilum að innheimta virðisaukaskatt við sölu vinnu og þjónustu til aðila sem hafa með höndum starfsemi er fellur undir 2. tölul.

Það er álit ríkisskattstjóra að sú starfsemi sem lýst er í bréfi yðar verði ekki lögð að jöfnu við þjónustu þeirra sérfræðinga sem um ræðir í 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990. Samkvæmt þeirri niðurstöðu á sveitarfélagið ekki rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli reglna um endurgreiðsiu virðisaukaskatts til opinberra aðila.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.