Dagsetning Tilvísun
14. febrúar 1995 666/95
Efnistaka úr landi – afreikningar
Vísað er til bréfs yðar dags. 5. desember 1994 þar sem greint er frá því að upp hafi komið ágreiningur við Vegagerð ríkisins vegna aðgerðar hennar við túlkun virðisaukaskattslaga og útfærslu á greiðslum til landeigenda vegna efnistöku í landi þeirra.
Í bréfi yðar segir m.a.:
“Þegar virðisaukaskattur var tekinn upp reiknaði Vegagerð ríkisins ekki vsk á keyptan m3 af efni í þessu tilfelli möl. Á afreikningi til landeigandans kemur ekki fram að um vsk-skylda vöru sé að ræða á árunum 1992 og 1993. Það er fyrst á árinu 1994, sem það kemur fram og þá eftir að skattstjóri Norðurlands eystra gerir athugasemd til landeigandans. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðar ríkisins hefur sama verð á m3 verið greitt landeigendum, hvort heldur þeir eru vsk-skyldir eða ekki.”
Að lokum er varpað fram þeirri spurningu, hvort opinbert stjórnvald hafi heimild til að greiða sama verð pr. m3 af möl til landeigenda hvort heldur þeir eru vsk-skyldir eða ekki. Og hvort ekki megi túlka útfærslu Vegagerðarinnar á afreikningi á þann veg, að eftir sé að greiða virðisaukaskatt og hvort Vegagerðinni beri ekki að standa skil á skattinum, ef um innheimtu hans verður að ræða aftur í tímann.
Samkvæmt 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með síðari breytingum, eru þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en kr. 100.000 á ári, undanþegnir skattskyldu samkvæmt lögunum. Fjárhæðin breytist 1. janúar ár hvert í samræmi við byggingarvísitölu. Frá 1. janúar 1995 er hún kr. 194.400. Við mat á því hvort aðili er undanþeginn skattskyldu á grundvelli þessa ákvæðis ber að líta á heildar- sölu hans á skattskyldum vörum og þjónustu. Ef aðili er með starfsemi í fleiri en einni atvinnugrein er það samtals skattskyld velta í þeim öllum sem segir til um skatt-skylduna.
Varðandi fyrri spurninguna vill ríkisskattstjóri taka það fram að það er ekki á hans færi að kveða úr um það, hvort Vegagerð ríkisins hafi heimild til að greiða sama verð til landeigenda fyrir möl hvort sem þeir eru virðisaukaskattsskyldir eða ekki, það hlýtur að vera háð samningum Vegagerðar ríkisins við landeigenda hverju sinni, hvaða verð er greitt fyrir möl svo sem aðra vöru sem Vegagerð ríkisins kaupir.
Samkvæmt 20. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila skal seljandi gefa út sölureikning við sérhverja afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu. Í 4. gr. sömu reglugerðar eru talin upp þau atriði sem koma skulu fram á sölureikningi. Í 5. tölulið greinarinnar segir að það eigi að koma fram hvort virðisaukaskattur er innifalinn eða ekki og enn fremur skuli sérstaklega koma fram hver fjárhæð virðisaukaskatts er.
Samkvæmt 6. gr. reglugerðar 50/1993 skulu þeir einir gefa út afreikninga (innleggsnótur) sem taka framleiðslu annarra til vinnslu eða endursölu. Ekki verður séð að umrædd viðskipti falli undir framangreind ákvæði og bar því landeiganda að gefa út reikning fyrir vörusölu sinni.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir