Dagsetning Tilvísun
19. október 1993 561/93
Eignayfirfærsla vörubirgða
Vísað er til bréfs yðar, dags. 6. október 1993, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort tiltekin eignayfirfærsla á lager flokkist undir 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Í bréfi yðar er m.a. tekið fram að fjárfestingarfélag kaupir um það bil 50% af hjólbarðalager bifreiðaumboðs. Samhliða þessu er gerður sérstakur samningur milli aðila þess efnis að bifreiðaumboðið endurkaupi lagerinn á næstu 12 mánuðum á nánar umsömdu verði. Fjárfestingarfélaginu er heimilt að selja öðrum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þá er þess getið að fjárfestingarfélagið muni að sjálfsögðu innheimta og skila virðisaukaskatti af sölunni til umboðsins, en leitað sé álits ríkisskattstjóra á því, hvort yfirfærsla lagersins frá bifreiðaumboðinu til fjárfestingarfélagsins sé virðisauka-skattsskyld eða hvort hún falli undir undanþáguheimild 12. gr. virðisaukaskattslaga.
Ríkisskattstjóri túlkar ákvæði 4. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga þannig að eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta fyrirtækis liggi fyrir í skilningi ákvæðisins þegar; (1) seljandi hættir rekstri fyrirtækis eða hættir rekstri afmarkaðs rekstrarþáttar (hluta fyrirtækis) og (2) kaupandi annaðhvort heldur áfram rekstri fyrirtækisins eða notar hina keyptu rekstrarfjármuni á annan sambærilegan hátt við atvinnustarfsemi sína.
Þar sem bifreiðaumboðið hættir eigi rekstri afmarkaðs rekstrarþáttar í atvinnustarfsemi sinni, heldur selur einungis helming af hjólbarðalager sínum, þá getur umrædd sala eigi flokkast undir ákvæði 4. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga. Seljanda ber því að innheimta virðisaukaskatt af sölu sinni til kaupanda.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson