Dagsetning                       Tilvísun
14. apríl 1993                        468/1993

 

Einkanot sendibifreiðar í virðisaukaskattsskyldri starfsemi

Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. mars 1993, þar sem þér farið fram á skriflegt svar ríkisskattstjóra um það álitaefni hvort staðsetning sendibifreiðar við heimili yðar teljist brot á settum reglum um virðisaukabifreiðar.

Í bréfi yðar kemur fram að þér gerið starfsemi yðar út frá heimili yðar að A í H, sem felist í útköllum til ýmissa aðila hvenær sólarhrings sem er, en af fylgibréfi virðist mega ráða að hér sé um einhverskonar smíða- og viðgerðarstarfsemi að ræða. Þá kemur einnig fram að viðgerðaraðstaða yðar sé í D í H.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram að skv. 9. gr. innskattsreglugerðar nr. 81/1991 er einungis heimilt að nota virðisaukabifreiðar í þeirri starfsemi eiganda sem er virðisaukaskattsskyld. Af þessu leiðir að hverskonar einkanot bifreiðar telst vera misnotkun hennar og leiðir slík misnotkun að öllu jöfnu til þess að allur innskattur af öflun bifreiðar verður bakfærður (leiðréttur).

Til einkanota sbr. 9. gr. innskattsreglugerðar telst m.a. akstur á milli heimilis og vinnustaðar. Reglan er því skýr og afdráttarlaus, þannig að akstur milli heimilis og vinnustaðar verður ávallt talinn til einkanota jafnvel þótt bifreið sé einungis geymd við heimahús eiganda eða starfsmanns. Þrátt fyrir framangreint er heimilt að geyma bifreið við heimahús viðkomandi eiganda ef hann hefur ekki fasta starfsstöð annars staðar.

Enda þótt notendur bifreiða á rauðhvítum skráningarmerkjum geti sýnt fram á að þeir hafi verið á bakvakt þegar bifreið stóð við heimahús er slík ástæða ekki fullnægjandi og myndi það valda því að allur innskattur af öflun bifreiðar yrði bakfærður.

Þar sem þér hafið fasta starfstöð utan heimilis yðar, þá er yður óheimilt að geyma virðisaukabifreið við heimili yðar líkt og væri það eina starfstöð yðar. Slíkt háttalag yrði skv. framansögðu talin misnotkun á meðferð virðisaukabifreiðar og yrði það nægjanlegt til þess að allur innskattur af öflun (við kaup) bifreiðar yrði bakfærður.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson.

 

Samrit sent skattstjóra R.