Dagsetning                       Tilvísun
28. apríl 1993                        472/1993

 

Einkanot sendibifreiðar í virðisaukaskattsskyldri starfsemi

Vísað er til bréfs yðar, dags. 23. mars 1993, þar sem þér farið fram á skriflegt svar ríkisskattstjóra um það álitaefni hvort áhaldaleiga í einkaeign yðar að K í H geti eftirleiðis fengið viðurkenningu á öðru heimilisfangi, þ.e. að heimili yðar að K í G.

Í bréfi yðar kemur fram að reynsla s.l. 9 ára sýni ótvírætt að heimilisfriður sé í engu virtur ef um þjónustustörf viðskiptavina sé að ræða, s.s. vegna skyndibilana o.þ.u.l. Rukkanir í þágu fyrirtækisins séu oft á tíðum stundaðar á kvöldin. Auk þessa sé heimilisskrifstofan nýtt fyrir fyrirtækið. Þér teljið að með tilliti til innbrots hjá fyrirtækinu og fjölda innbrota í nágrenni þess sé nauðsynlegt að annað heimilisfang vinnustaðar verði viðurkennt, svo yður verði unnt að fara heim á virðisaukabifreið fyrirtækisins að loknum venjulegum vinnudegi.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram að það er eigi á færi skattyfirvalda að ákvarða heimilisfang atvinnufyrirtækja, nema vafi leiki á því hvar það sé og máli skipti í skattaréttarlegu tilliti. Fyrirtæki yðar, Á, er án nokkurs vafa með starfsstöð að K í H.

Skv. 9. gr. innskattsreglugerðar nr. 81/1991 er einungis heimilt að nota virðisauka-bifreiðar í þeirri starfsemi eiganda sem er virðisaukaskattsskyld. Af þessu leiðir að hverskonar einkanot bifreiðar telst vera misnotkun hennar og leiðir slík misnotkun að öllu jöfnu til þess að allur innskattur af öflun bifreiðar verður bakfærður (leiðréttur).

Til einkanota sbr. 9. gr. innskattsreglugerðar telst m.a. akstur á milli heimilis og vinnustaðar. Reglan er því skýr og afdráttarlaus, þannig að akstur milli heimilis og vinnustaðar verður ávallt talinn til einkanota jafnvel þótt bifreið sé einungis geymd við heimahús eiganda eða starfsmanns. Þrátt fyrir framangreint er heimilt að geyma bifreið við heimahús viðkomandi eiganda ef hann hefur ekki fasta starfsstöð annars staðar.

Enda þótt notendur bifreiða á rauðhvítum skráningarmerkjum geti sýnt fram á að þeir hafi verið á bakvakt þegar bifreið stóð við heimahús er slík ástæða ekki fullnægjandi og myndi það valda því að allur innskattur af öflun bifreiðar yrði bakfærður.

Þar sem þér hafið fasta starfstöð utan heimilis yðar, þá er yður óheimilt að geyma virðisaukabifreið við heimili yðar líkt og væri það eina starfstöð yðar. Slíkt yrði skv. framansögðu talin misnotkun á meðferð virðisaukabifreiðar og yrði það nægjanlegt til þess að allur innskattur af öflun (við kaup) bifreiðar yrði bakfærður.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson.