Dagsetning                       Tilvísun
29. nóvember 1993                            581/93

 

Endurgreiðsla vegna viðhalds og viðgerða á húsnæði

Vísað er til bréfs yðar, dags. 26. október 1993, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort nokkrar heilsugæslustöðvar eigi kröfu á því að fá endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðhalds og viðgerða á sama hátt og þegar einstaklingar eiga í hlut.

Samkvæmt reglugerð nr. 449/1990 um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, með breytingum skv. reglugerðum nr. 489/1992 og 30/1993 er eigendum íbúðarhúsnæðis endurgreiddur virðisaukaskattur sem þeir hafa greitt vegna vinnu manna við endurbætur eða viðhald húsnæðisins.

Ekki er að finna í virðisaukaskattslögunum eða reglugerðum settum með stoð í lögunum né annars staðar, heimild til þess að endurgreiða virðisaukaskatt þegar um viðhaldsvinnu er að ræða á annars konar húsnæði en íbúðarhúsnæði.

Þess má þó geta að samkvæmt 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, þá skal endurgreiða sveitarfélögum og ríkisstofnunum þá greiðslu er þau hafa greitt fyrir sérfræðiþjónustu m.a. verkfræðinga, tæknifræðinga og arkitekta.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkiskattstjóra

Grétar Jónasson.