Dagsetning                       Tilvísun
15. september 1993                            534/93

 

Endurgreiðsla virðisaukaskatts.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 24. desember 1992, þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort endurgreiðsla fáist á virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingarstað vegna húsnæðis er hýsir m.a. íbúðir aldraðra. Í húsinu eru samtals 14 íbúðir og eru 5 þeirra leigðar út en hinum 9 er ráðstafað með svonefndri hlutdeildarsölu. Einnig er í húsinu þjónusturými fyrir íbúana auk annarra ellilífeyrisþega.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, skal endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt vegna vinnu manna á byggingarstað. Í 2. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um að endurgreiðsla skv. reglugerðinni taki ekki til orlofshúsa, sumarbústaða eða bygginga fyrir starfsemi sem fellur undir ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Samkvæmt 1. og 2. tl. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er nefnd heilbrigðisþjónusta og ýmis félagsleg þjónusta og verður að telja að fyrrgreint húsnæði falli að hluta til undir þá liði.

Ríkisskattstjóri telur að sá hluti hússins sem ætlaður er undir íbúðir sé endurgreiðsluhæfur þar sem að þarna er um heilsársíbúðir að ræða en með heilsársíbúð er átt við húsnæði sem byggt er samkvæmt skipulagi sem íbúðarhúsnæði þ.e. er við byggingu ætlað til samfelldrar notkunar á öllum tímum árs. Á hinn bóginn nær endurgreiðslan ekki til þess hluta hússins sem ekki er ætlaður til íbúðarhúsnæðis.

Það er álit ríkisskattstjóra að til þess að endurgreiðslan geti farið fram þá verði að liggja fyrir nákvæm skipting á því hve stór hluti húsnæðisins sé til íbúðarhúsnæðis og hve stór hluti til annars.

 

Virðingarfyllst

f.h. ríkisskattstjóra

Grétar Jónasson