Dagsetning Tilvísun
24. september 1992 425/92
Endurgreiðsla virðisaukaskatts af aðföngum N.
Með bréfi yðar, dags. 30. janúar 1992, er gerð grein fyrir starfsemi N og þess óskað að ríkisskattstjóri meti hvort unnt sé að veita stofnuninni heimild til að fá virðisaukaskatt endurgreiddan af aðföngum með stoð í lögum um virðisaukaskatt.
Fram kemur í bréfnu að stofnunin leiðbeinir og þjálfar erlenda styrkþega í þeim greinum jarðvísinda sem lúta að eldvirkni og jarðhita. Þá segir að stofnunin þiggi allt fé til reksturs og fjárfestinga úr erlendum sjóði X. Af þessu má ráða að stofnunin selji ekki þjónustu sína, þ.e. geri Y ráðherranefndinni reikning fyrir veitta þjónustu, heldur virðist fjármögnun starfseminnar háð fjárveitingum úr Z sjóðum. Sala vöru eða virðisaukaskattsskyldrar þjónustu er forsenda skráningar samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Af framangreindu leiðir að stofnunin á ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts á þeim grundvelli að um sé að ræða innskatt.
Tekið skal fram að þótt talið yrði að stofnunin hefði með höndum sölu á þjónustu er nauðsyn sérstakrar athugunar á því hvort sú þjónusta yrði talin skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Rekstur skóla og menntastofnana er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Er undanþáguákvæði þetta skýrt þannig að það taki m.a. til allrar venjulegrar háskólakennslu, svo og kennslustarfsemi sem feli í sér faglega menntun, þ.e. að viðhalda eða auka þekkingu manna eingöngu vegna atvinnustarfsemi þeirra. Loks skal bent á að þótt talið yrði að þjónustan væri skattskyld verður ekki séð að um sé að ræða útflutning á þjónustu, eins og haldið er fram í erindinu.
Þess skal getið að ríkisstofnanir eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts af vissri þjónustu, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990. Sú reglugerð tekur ekki til erlendra stofnana sem starfa hér á landi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkiskattstjóra
Vala Valtýsdóttir.