Dagsetning                       Tilvísun
28. apríl 1992                            402/92

 

Endurgreiðsla virðisaukaskatts af íbúðarbyggingum R.

Með bréfi, dags. 20. febrúar 1992, leitið þér álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna byggingar íbúðarhúsa fyrir starfsmenn R.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 28. janúar 1991, svarað fyrirspurn um meðferð virðisaukaskatts af starfsemi R almennt. Er í bréfi ríkisskattstjóra miðað við að stofnunin, sem annast gegn greiðslu frá B S rekstur og viðhald R sem eru hér á landi í eigu B S, væri skráningarskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Kemur fram að stofnunin getur selt framangreinda þjónustu án þess að salan teldist til skattskyldrar veltu, sbr. 48. gr. laga um virðisaukaskatt. Jafnframt kemur fram í bréfi ríkisskattstjóra að stofnunin geti talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem til fellur vegna kaupa rekstrar- og fjárfestingarvara. Er hér að sjálfsögðu vísað til almennra ákvæða laga um virðisaukaskatt.

Samkvæmt 2. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt sem varðar öflun eða rekstur íbúðarhúsnæðis fyrir eiganda eða starfsmenn. Verður ekki annað séð en að þessi regla gildi um R eins og aðra skráða aðila. Athygli skal vakin á því að byggjendur íbúðarhúsnæðis geta fengið endurgreiddan virðisaukaskatt vegna vinnu manna á byggingarstað eftir ákvæðum reglugerðar nr. 449/ 1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

Telji stofnunin að hún eigi rétt á frekari endurgreiðslum virðisaukaskatts en að framan er rakið verður að beina erindi þar að lútandi til fjármálaráðuneytisins.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.