Dagsetning Tilvísun
20. des. 1990 188/90
Endurgreiðsla virðisaukaskatts af lopa.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 3. júlí sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna fyrirtækis sem flytur út vörur úr íslenskum lopa.
Starfseminni er lýst svo að fyrirtækið kaupir lopa af Á og síðan taka einstaklingar að sér að handprjóna úr efninu í heimahúsum. Yfirleitt prjónar hver maður tvær til þrjár peysur á mánuði og allir fyrir minna en 150.000 kr. á ári. Eini starfsmaður fyrirtækisins vinnur við peysumóttöku í hálfu starfi. Varan er send erlendis til sölu.
Starfsemi fyrirtækis yðar er virðisaukaskattsskyld og ber því að tilkynna um starfsemina til skráningar hjá viðkomandi skattstjóra, sbr. 5. gr. laga um virðisaukaskatt. Við skráningu stofnast réttur til endurgreiðslu þess virðisaukaskatts sem fyrirtækið greiðir við kaup á lopa.
Ef lopinn er seldur þeim sem prjóna úr honum ber fyrirtæki yðar að innheimta virðisaukaskatt (útskatt) af sölunni. Ef þeir sem prjóna úr efninu eru undir skattskyldumörkum, þ.e. selja fyrir minna en 155.800 kr. á ári (fjárhæð breytist um áramót miðað við byggingarvísitölu), ber sala þeirra á peysum ekki virðisaukaskatt. Njóta þeir þá heldur ekki innskattsfrádráttar.
Afhendi fyrirtækið þeim, sem prjóna úr lopanum, hann án endurgjalds kemur ekki til frekari skattlagningar hans beinlínis. Hins vegar ber sala á prjónavörum innanlands 24,5% virðisaukaskatt. Sala úr landi er undanþegin skattskyldri veltu (ber „núll-skatt“).
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.