Dagsetning Tilvísun
24. mars 1992 397/92
Endurgreiðsla virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddu húsi.
Með bréfi yðar, dags. 21. febrúar sl., er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort fyrirtæki, sem ekki framleiðir einingar, en kaupir húseiningar til afhendingar við verksmiðjudyr, setur það upp og gengur frá því, geti fengið endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt reglum um endurgreiðslu vegna sölu verksmiðjuframleiddra húsum, sbr. III. kafla reglugerðar nr. 449/1990.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
- Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, er virðisaukaskattur ekki endurgreiddur af söluverði húshluta eða húsa sem afhent eru óuppsett. Verksmiðja sem selur óuppsett einingahús fær því ekki endurgreiðslu vegna þeirrar sölu.
- Endurgreiðsluréttur skv. III. kafla reglugerðar nr. 449/1990 er bundinn við þá sem framleiða íbúðarhús í verksmiðju hér á landi. Aðrir eiga ekki rétt á endurgreiðslu samkvæmt þeim reglum sem gilda um verksmiðjuframleidd íbúðarhús. Fyrirtæki sem kaupir einingahús og setur það upp á því ekki rétt á endurgreiðslu samkvæmt þessum reglum, en lóðarhafi, sem kaupir slíkt hús óuppsett fær endurgreiddan virðisaukaskatt af allri vinnu manna á byggingarstað við grunn og uppsetningu, sbr. nánar II. kafla reglugerðarinnar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.