Dagsetning Tilvísun
18. júní 1991 287/91
Endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.
Með bréfi yðar, dags. 12. febrúar 1991, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort virðisaukaskattur af vinnu manna við viðgerðir á húseignum í eigu byggðasafns fáist endurgreiddur samkvæmt reglugerð nr. 449/1990. Um er að ræða tvö gömul hús sem bæði voru byggð og notuð sem íbúðarhús. Í bréfi forstöðumanns byggðasafnsins til skattstjóra, dags. 6. febrúar 1991, segir um fyrirhugaða notkun:
„… Enn sem komið er liggur formleg ákvörðun (um notkun) ekki fyrir, en horft hefur verið til ýmissa möguleika: Að nýta annað húsið … sem rannsóknaraðstöðu eða gestaíbúð fyrir fræðimenn (listamenn), sem um afmarkaðan tíma hefðu húsið til afnota, líkt og víða tíðkast við söfn, einkum erlendis. Að nýta hitt húsið til fastrar búsetu, t.d. fyrir hugsanlegt starfsfólk safnsins líkt og gert er í Árbæjarsafni
Samkvæmt l. gr. reglugerðar nr. 449/1990 nær heimild til endurgreiðslu aðeins til íbúðarhúsnæðis. Þetta er áréttað í 2. gr. reglugerðarinnar, þar sem tekið er fram að reglugerðin taki ekki til orlofshúsa, sumarbústaða eða bygginga fyrir starfsemi sem fellur undir ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.
Starfsemi byggðasafns fellur undir 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt og er því ljóst að ekki er endurgreiðsluheimild vegna húsnæðis sem byggðasafn hefur opið til sýningar fyrir almenning eða notar á annan sambærilegan hátt í þágu safnsins. Skiptir þá ekki máli þótt það hafi verið byggt og notað sem íbúðarhúsnæði. Hvað varðar húsnæði til þeirra nota sem fyrirspurnin varðar skal eftirfarandi tekið fram:
Starfsmannabústaður. Það er álit ríkisskattstjóra að byggðasafn geti fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu manna á byggingarstað við heilsársíbúð sem það notar til fastrar búsetu fyrir starfsmann eða starfsmenn safnsins. Með heilsársíbúð er átt við húsnæði sem byggt er samkvæmt skipulagi sem íbúðarhúsnæði, þ.e. er við byggingu ætlað til samfelldrar notkunar á öllum tímum árs.
Fram kemur í greinargerð forstöðumanns safnsins að umrætt hús er um þessar mundir ekki notað sem íbúðarhúsnæði og hefur formleg ákvörðun um nýtingu þess ekki enn verið tekin. Af þessu leiðir að ekki er að svo stöddu unnt að afgreiða fyrirliggjandi endurgreiðslubeiðni.
Rannsóknar- eða gestaíbúð. Af gögnum málsins má ráða að ekki er gert ráð fyrir að þetta húsnæði verði leigt mönnum til íbúðar á venjulegum leigukjörum. Virðist því þvert á móti ætlað að vera þáttur í starfsemi safnsins og telur ríkisskattstjóri að 2. gr. reglugerðar nr. 449/1990 taki til þessa húsnæðis, þ.e. að ekki fáist endurgreiddur virðisaukaskattur af vinnu vegna þessa húsnæðis.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.