Dagsetning Tilvísun
16. desember 1991 369/91
Endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu manna við nýbyggingu íbúðarhúsnæðis.
Í lögum um virðisaukaskatt og reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, eru ákvæði um það hverjir eiga rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.
Að undanförnu hefur embætti ríkisskattstjóra fengið nokkrar fyrirspurnir um það hvernig endurgreiðslu skuli háttað þegar húsnæðisnefndir sveitarfélaga hafa samið við byggingarfyrirtæki um byggingu félagslegra íbúða, nánar tiltekið þegar samningar komast á með þeim hætti að húsnæðisnefnd viðkomandi sveitarfélags leitar til byggingarfyrirtækja, sem eru lóðarhafar, um kaup á íbúðum til félagslegra nota.
Í mörgum tilvikum hafa samningsaðilar ekki verið á eitt sáttir um það hver eigi að fá endurgreiðslu samkvæmt reglugerð nr. 449/1990. Aðalorsök þessa ágreinings virðist vera sú að samningar milli aðila eru nefndir verksamningar og hafa húsnæðisnefndir talið sig eiga rétt á endurgreiðslu af þeim sökum. Byggingarfyrirtækin hafa aftur á móti talið að þau ættu að fá endurgreiðslu þar sem þeir eru lóðarhafar enda séu samningarnir í eðli sínu kaupsamningar en ekki verksamningar þó að heiti þeirra bendi til annars.
Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, fær sá endurgreiðslu virðisaukaskatts sem byggir á eigin lóð eða leigulóð íbúðarhúsnæði á eigin kostnað. Þetta gildir hvort heldur er byggt til eigin nota eða til sölu eða leigu.
Ríkisskattstjóri telur að í þeim tilvikum þar sem álitamál er um hver eigi rétt á endurgreiðslu og aðilar hafa ekki sett ákvæði í samning sín á milli um það hvor aðilanna eigi að fá endurgreiðsluna beri að fara eftir því hver sé lóðarhafi við samningsgerð. Skiptir þá ekki máli hvort samningur er nefndur kaupsamningur eða verksamningur. Þetta þýðir að sé byggingarfyrirtæki lóðarhafi við samningsgerð fær það endurgreiðslu þar til íbúðin er afhent í því ástandi sem samningur kveður á um. Er í þessu sambandi litið til orðalags fyrrnefndrar reglugerðar þar sem sagt er að rétthafi endurgreiðslu sé sá sem byggir á eigin lóð eða leigulóð.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.