Dagsetning                       Tilvísun
20. maí 1996                            737/96

 

Endurgreiðsla virðisaukaskatts- námsmannaíbúðir.

Vísað er til bréfs yðar dags. 2. maí sl., þar sem óskað er túlkunar ríkisskattstjóra á hugtakinu íbúðarhúsnæði í skilningi reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

Það er skilningur ríkisskattstjóra á hugtakinu íbúðarhúsnæði samkvæmt fyrrnefndri reglugerð, að einungis sé átt við íbúðarhúsnæði í hefðbundnum skilningi þess orðs, þ.e. íbúð sem er sjálfstæð eining þar sem einstaklingar búa, einn eða fleiri með alla þá aðstöðu sem ætla má að tilheyri slíku húsnæði. Er hér átt við baðherbergi, eldhús, svefnherbergi og önnur íveruherbergi eftir atvikum.

Þegar vafi leikur á hvort húsnæði telst íbúðarhúsnæði samkvæmt áðurnefndri reglugerð eða ekki, ber að líta til þess hvort húsnæðið er skráð sem íbúðarhúsnæði samkvæmt skráningu Fasteignamats ríkisins og gæti gengið kaupum og sölum sem slíkt.

Í bréfi yðar nefnið þér að iðnnemar eigi stórt íbúðarhús sem leigt er út til iðnnema. Verður ekki annað séð en endurgreiðsluheimildin nái til þessa húsnæðis, þar sem það uppfyllir ofangreind skilyrði.

Að síðustu skal tekið fram að endurgreiðsluheimildin tekur ekki til orlofshúsa, sumarbústaða, eða bygginga fyrir starfsemi sem fellur undir ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 449/1990.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir