Dagsetning                       Tilvísun
14. jan. 1991                            209/91

 

Endurgreiðsla virðisaukaskatts sem erlent fyrirtæki hefur greitt hér á landi vegna vöru sem það hefur flutt hingað til lands.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 25. júní sl., sem varðar meðferð virðisaukaskatts af vinnu innlendrar vélsmiðju fyrir erlendan aðila vegna vöru sem hann hefur selt hingað til lands.

Í bréfinu er nefnt eftirfarandi dæmi:

„… Danskur aðili, sem selur frysti- og kælibúnað og -kerfi til Íslands fær innlenda vélsmiðju til að annast samsetningu og uppsetningu búnaðarins hér á landi á sinn kostnað, þar sem slík uppsetning og samsetning er innifalin í heildarsöluverði vörunnar. Kaupandi greiðir lögum samkvæmt virðisaukaskatt af innkaupsverði, sem innifelur kostnað við framangreinda þjónustu vélsmiðjunnar. Vélsmiðjan hefur hingað til sent hinum danska aðila reikning fyrir þjónustu sína að viðbættum virðisaukaskatti.“

Síðan er bent á að greiðsla virðisaukaskatts samkvæmt reikningi vélsmiðjunnar leiði til tvísköttunar þar sem virðisaukaskattur hafi þegar verið lagður á heildarsöluverð vörunnar (þ.m.t. uppsetningu) við tollafgreiðslu.

Til svars erindinu skal tekið fram að hinum innlenda þjónustusala ber að áliti ríkisskattstjóra að innheimta og skila virðisaukaskatti af andvirði þjónustu sinnar. Engin ákvæði laga eða reglugerða undanþiggja hann þeirri skyldu.

Með 7. gr. laga nr. 106/1990, er tóku gildi 1. janúar sl., er virðisaukaskattslögum breytt á þann hátt að nú er lagaheimild til að endurgreiða erlendu fyrirtæki sem greiðir hér á landi virðisaukaskatt vegna vöru sem það hefur selt hingað til lands. Samkvæmt 8. gr. sömu laga er slík endurgreiðsla heimil vegna viðskipta frá 1. janúar 1990. Fram kemur í greinargerð með frumvarpi til breytingalaganna að tilefni breytingarinnar voru m.a. tvísköttunarvandamál af því tagi sem þér gerið að umtalsefni í bréfi yðar.

Reglugerð samkvæmt nefndu lagaákvæði er í undirbúningi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.