Dagsetning                       Tilvísun
4. feb. 1991                             242/91

 

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til húsbyggjenda.

Í tilefni af álitaefnum sem upp hafa komið við afgreiðslu beiðna um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, sbr. reglugerð nr. 449/1990, vill ríkisskattstjóri taka fram eftirfarandi:

Sumarbústaðir og orlofshús.

Ekki er endurgreiddur virðisaukaskattur vegna vinnu við orlofshús og sumarbústaði, sbr. 2. gr. reglugerðarinnar. Þannig er ekki endurgreiddur virðisaukaskattur af vinnu við hefðbundna sumarbústaði í dreifbýli (bústaða sem skipulagðir eru og byggðir í því skyni að dveljast þar hluta úr ári) og orlofsbyggðir félagasamtaka í dreifbýli.

Ákvæðið kemur hins vegar ekki í veg fyrir að menn fái endurgreiðslu vegna heilsársíbúða sem þeir kunna að eiga umfram það húsnæði þar sem þeir eiga lögheimili sitt. Félagasamtök fá einnig endurgreiðslu vegna heilsársíbúða í þeirra eigu. Með heilsársíbúð er átt við húsnæði sem byggt er samkvæmt skipulagi sem íbúðarhúsnæði, þ.e. er við byggingu ætlað til samfelldrar notkunar á öllum tímum árs.

Dvalarheimili o.fl.

Ekki er endurgreiddur virðisaukaskattur af vinnu manna við byggingar fyrir starfsemi sem fellur undir ákvæði 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Hér er t.d. átt við hótel, heimavistir skóla, sjúkrahús; heilsuhæli og dvalarheimili fatlaðra og aldraðra.

Gera verður greinarmun á dvalarheimilum fyrir fatlaða og aldraða (stofnunum) og íbúðarhúsnæði í eigu einstaklinga eða sem einstaklingar leigja á venjulegum leigukjörum þótt húsnæðið sé byggt í tengslum við stofnanir af ofangreindu tagi.

Ófullnægjandi reikningar með umsókn.

Eins og fram kemur i 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar skal frumrit fullnægjandi sölureiknings fylgja beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna endurbóta og viðhalds. Ríkisskattstjóri lítur svo á að þótt minniháttar atriði vanti upp á að sölureikningur sé fullnægjandi samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu, megi eftir sem áður taka hann gildan við afgreiðslu endurgreiðslubeiðni.

Senda skal skattrannsóknarstjóra ljósrit af sölureikningum sem ekki uppfylla öll form- og efniskilyrði síðastnefndrar reglugerðar.

Atriði sem skilyrðislaust verða að vera í lagi til að endurgreiða megi á grundvelli reiknings eru þessi:

* Að um sé að ræða frumrit. Frá þessu má þó víkja þegar í hlut eiga bókhaldsskyldir aðilar, svo og stofnanir ríkis og sveitarfélaga.

* Að fram komi á reikningi hver hefur gefið hann út, þ.e. nafn og kennitala og/eða vsk-númer. Aðeins má endurgreiða ef útgefandi reiknings er skráður aðili. Þetta leiðir til þess að skattstjóri verður að kanna hvort aðilar sem ekki tilgreina vsk-númer á reikningi séu á skrá.

* Að fram komi hvar (hvaða fasteign) og við hvað hafi verið unnið og að eingöngu sé um að ræða vinnu manna.

* Að virðisaukaskattur sé sérgreindur á reikningi eða skýrt komi fram að hann sé innifalinn í heildarfjárhæð.

Þannig má taka reikning gildan þótt tölusetning sé ekki fullnægjandi, kennitölu eða vsk-númer vanti eða tilgreining kaupanda sé ekki nægileg.

Sama gildir þótt í ljós komi að útgefandi reiknings (skráður aðili) hafi ekki skilað innheimtum virðisaukaskatti.

Efnisnótur.

Nauðsynlegt er að vera vel á verði gagnvart því að ekki sér endurgreiddur skattur af öðru en vinnu manna – ekki af efni, akstri, vélavinnu o.s.frv. Ef upplýsingar liggja ekki fyrir um efniskostnað í þeim gögnum sem fylgja umsókn og ef skattstjóri telur líkur á að efni eða annar kostnaður sé inni í endurgreiðslukröfu ber að óska eftir því við umsækjanda að hann geri nánari grein fyrir kostnaði.

Leiðrétting endurgreiðslubeiðni.

Ríkisskattstjóri telur ekki nauðsynlegt að umsækjanda sé formlega gert aðvart fyrirfram um leiðréttingar sem skattstjóri gerir á umsókn ef hún er í augljósu ósamræmi við endurgreiðslureglur og óyggjandi upplýsingar liggja fyrir i umsókn eða fylgigögnum, t.d. ef sótt er um endurgreiðslu vegna efnis eða sérfræðiþjónustu. Hins vegar er rétt að skattstjóri geri umsækjanda í þessum tilvikum aðvart um hvaða atriði hafa sætt leiðréttingu, t.d. með áritun á gögn (reikninga) sem eru endursend umsækjanda.

Nauðsynlegt er hins vegar að tilkynna með formlegum hætti breytingu sem skattstjóri hyggst gera á umsókn ef breyting er byggð á síðari upplýsingum eða ef gögn eru ekki fullnægjandi, t.d. ef reikningar og önnur gögn eru alls ekki fullnægjandi, sbr. það sem áður sagði um þau efni.

Tekið skal fram að vélræn tilkynning er send til allra sem fá endurgreiðslu. Þar kemur fram fjárhæð til endurgreiðslu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Jón Guðmundsson.