Dagsetning Tilvísun
22. júlí 1993 504/93
Endurgreiðsla virðisaukaskatts til opinberra aðila
Vísað er til bréfs yðar, dags. 1. júní 1993, varðandi endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa (RER) á þjónustu (BÍ).
Í bréfi yðar kemur fram að breytingar voru gerðar á reglugerð um raforkuvirki nr. 264/1971, sem leiddi til þess að prófun raffanga á Íslandi var hætt og eftirlit með rafföngum (markaðseftirlit) var fært skv. samningi frá RER til BÍ. Færsla markaðseftirlitsins frá RER til BÍ var með þeim hætti að viðskipta- og iðnaðarráðuneytið gerði samning við BÍ um að það tæki að sér markaðseftirlit í eitt ár og að tveir fyrrverandi starfsmenn RER (verkfræðingur og tæknifræðingur) sæju um eftirlitið.
Nú hefur fyrsti reikningur skv. ofangreindum samningi borist RER, og er því óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort stofnuninni er heimilt að fá endurgreiddan virðisaukaskattinn, þar sem stofnunin er með greiðslum skv. 1. lið 6. gr. samningsins (vinna, laun, ýmis rekstrarkostnaður o.s.frv.) að kaupa sérfræðiþjónustu af BÍ, sem flokkast undir reglugerðir nr. 562/1989 og 248/1990, enda er upptalinn kostnaður skv. samningnum ekki ólíkur venjulegum rekstrarkostnaði sérfræðings frá verkfræðistofu og svipuð þjónusta var áður til staðar innan stofnunarinnar.
Samkvæmt fylgiskjali með bréfi yðar um skipulag markaðsgæslunnar kemur fram í lið nr. 1 að markaðseftirlit BÍ felist í að sjá um að vörur á markaði uppfylli settar reglur og ógni ekki öryggi, heilbrigði og umhverfi. Jafnframt segir í lið nr. 5 að í markaðsskoðun felist að fara til þeirra aðila sem hafa vörur á boðstólum, velja vörur til skoðunar í samræmi við verklagsreglur, skoða vörur og meta þær með faglegu mati. Fylla skuli út skoðunarskýrslu og gera aðila grein fyrir niðurstöðu skoðunarinnar. Einnig skal markaðseftirlitið sinna kvörtunum og öðrum verkefnum, s.s. upplýsingagjöf og útfyllingu tæknilegra skjala.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram að endurgreiðsla er takmörkuð við þá vinnu og þjónustu sem talin er upp í 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af starfsemi opinberra aðila. Í 13. gr. reglugerðarinnar kemur fram að ekki skiptir máli af hverjum þjónusta er keypt. Þannig tekur endurgreiðslan bæði til vinnu og þjónustu atvinnufyrirtækja (þ.m.t. opinber þjónustufyrirtæki) og fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga, stofnana og þjónustudeilda þessara aðila.
Samkvæmt 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 skal endurgreiða sveitarfélögum og ríkisstofnunum virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu.
Það er ekki hægt að fá endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sérfræðiþjónustu, ef þjónustan er veitt sem óaðskiljanlegur hluti af stærri heild, þar sem innifalinn er allur kostnaður, hvort sem hann stafar frá sérfræðingum eða öðrum („pakkasamningur“, t.d. ef sérfræðiþjónusta er hluti af verksamningi og þá aðföng seljanda vinnu eða þjónustu), eða ef almenn þjónusta sérfræðinga er ekki í tengslum við sérfræðimenntun þeirra.
Það er álit ríkisskattstjóra að sú starfsemi sem lýst er í bréfi yðar verði talin til þjónustu þeirra sérfræðinga sem um ræðir í 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990. Samkvæmt þeirri niðurstöðu á stofnunin rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli reglna um endurgreiðslu virðisaukaskatts til opinberra aðila.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson.