Dagsetning Tilvísun
21. september 1993 530/93
Endurgreiðsla virðisaukaskatts til opinberra aðila
Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. september 1993, þar sem SÍS óskar eftir skriflegu svari frá embætti ríkisskattstjóra við því hvort þjónusta T (TS) geti fallið undir endurgreiðsluheimildir samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.
Í bréfi yðar er vísað í upplýsingar um starfsemi TS, en þar kemur eftirfarandi fram:
„Markmið TS:
- Samræma gagnavinnslu sveitarfélaga.
- Vera upplýsingamiðstöð og vettvangur upplýsingaskipta sveitarfélaga um gagnavinnslu.
- Stuðla að og efla samvinnu sveitarfélaga um gerð sérhæfðs hugbúnaðar.
- Vera sveitarfélögunum til ráðgjafar á sviði tölvumála, bæði vél- og hugbúnaði.
- Aðstoða sveitarfélögin við þjálfun starfsfólks.
- Sérstök verðlagningarstefna þar sem minni sveitarfélögin njóti góðs af samstarfinu við þau stærri.
Verkefni TS:
- Hönnun og útboð á hugbúnaði fyrir sveitarfélög.
- Sameiginleg innkaup á hugbúnaði og þjónustu fyrir sveitarfélög, þar sem ýmist eru keypt tölvukerfi eða aðeins söluréttur til sveitarfélaga.
- Gerð hugbúnaðar.
- Þjónusta á hugbúnaði, sem unnin er innanhúss að hluta eða öllu leyti eða á kerfum sem unnin hafa verið af öðrum.
- Almenn ráðgjöf á sviði tölvumála.
- Námskeiðahald.
- Sameiginleg innkaup á vélbúnaði (óveruleg).
Rekstur og reikningagerð:
Sveitarfélög sem nota hugbúnað sem er í eigu TS eða TS hefur sölurétt á, greiða fyrir afnotarétt og þjónustu, sem að stórum hluta er aðkeypt af TS, en skipt milli notenda samkvæmt gjaldskrá (íbúafjölda).
Reikningar eru þrenns konar:
a) Stofngjald þegar hugbúnaðurinn er tekinn í notkun.
b) Árlegt þjónustugjald meðan þau nota hugbúnaðinn.
c) Seld vinna vegna atriða er falla utan þjónustusamnings.
Innifalið í þjónustugjaldi er „hvabb“þjónusta og viðhald og þróun hugbúnaðarins.
Stofn- og þjónustugjöld eiga að standa undir rekstri TS. Á undanförnum árum hefur á milli 60 til 70% af rekstrarkostnaði TS verið aðkeypt vinna frá hugbúnaðarhúsum og tölvufyrirtækjum.
Starfsmenn:
Forstöðumaður er byggingarverkfræðingur með tölvunarfræði sem sérsvið, og áratuga langa reynslu á sviði sveitarstjórnarmála. Aðstoðarmaður er kennari með mikla reynslu og sérhæfingu á sviði bókhalds sveitarfélaga. Starfsmaður er með próf frá X“.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram að samkvæmt 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 skal endurgreiða sveitarfélögum og ríkisstofnunum virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endur-skoðenda og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu. Ríkisskattstjóri lítur svo á að ákvæðið taki einungis til sérfræðinga sem lokið hafa háskólaprófi eða aldeilis sambærilegu langskólanámi. Hvað sé aldeilis sambærilegt langskólanám verður að meta í hverju tilviki fyrir sig, og þá skal sérstaklega höfð hliðsjón af lengd námsins og hvort nám teljist almennt langskólanám, þar sem grunnnám er að baki, þriggja til fjögurra ára framhaldsnám til stúdentsprófs og sérfræðinámið sjálft, sem að jafnaði væri ekki skemmra en tvö til þrjú ár.
Ekki er fallist á endurgreiðslu virðisaukaskatts ef almenn þjónusta sérfræðinga er ekki í tengslum við sérfræðimenntun þeirra. Hér er átt við vinnu sérfræðinga sem ekki telst til þeirra sérfræðisviðs, s.s. almennar bílaviðgerðir verkfræðinga, bókhaldsþjónusta tölvunarfræðinga eða vélritunarþjónusta lögfræðinga. Ef á reikningi er tilgreind þjónusta sem hluti af sérfræðiþjónustu og almennt er nauðsynlegur hluti af starfi sérfræðinga, en ekki þarf sérfræðimenntun til, s.s. ljósritun eða vélritun nauðsynlegra gagna varðandi viðkomandi sérfræðimálefni, þá flokkast sú þjónusta undir ákvæðið. Einnig ber þess að geta, að ef aðili telst til sérfræðings í skilningi á.n. ákvæðis og vinna hans er í samræmi við þá menntun og starfsemi sem hann rekur, þá er vinnan endurgreiðsluhæf á grundvelli ákvæðisins, þó svo að margir aðrir gætu unnið sama starf, t.d. einföld bókhaldsvinna viðskiptafræðings, hvers konar tölvuforritun tölvunar-fræðings o.s.frv., þ.e.a.s. ekki er gerð krafa um að vinna sérfræðinga sé á einhverju sérstöku erfiðleikastigi.
Það telst nægilegt til þess að verkefni verði endurgreiðsluhæft í skilningi ákvæðisins að eigandi (eigendur) fyrirtækis, eða aðrir forsvarsmenn þess, hafi fullnægjandi sérfræði-menntun, enda séu nöfn þeirra á reikningi eða öðrum fylgiskjölum, þannig að ljóst sé að sérfræðingur taki ábyrgð á viðkomandi verkefni.
Þar sem tölvuþjónusta sveitarfélaga (TS) virðist uppfylla áðurnefnd skilyrði, þá er sveitarfélögum kleyft að fá endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem þau greiða vegna keyptrar sérfræðiþjónustu hjá TS, en ekki af annarri þjónustu sem ekki er nauðsynlegur þáttur í sérfræðiþjónustu TS, t.d. sölumiðlun (sérstök þóknun vegna sameiginlegra innkaupa) eða sala og leiga á almennum hugbúnaði. Til þess að reikningar frá TS séu endurgreiðsluhæfir þarf að koma skýrt fram á þeim um hverskonar sölu er að ræða, sbr. II. kafla reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskatts-skyldra aðila.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson.