Dagsetning                       Tilvísun
4. nóv. 1994                            650/94

 

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til opinberra aðila – innheimta lögmanna.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. október sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort skuldari eigi að greiða virðisaukaskatt af innheimtuþóknun lögmanns þegar ríkisféhirðir er kröfueigandi.

Í bréfi yðar er spurt hvort ríkisféhirðir fái virðisaukaskatt af innheimtukostnaði lögmanns endurgreiddan skv. 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 og ef svo er hvort lögmanni sé ekki rétt að krefja skuldara um fjárhæð innheimtukostnaðar án virðisaukaskatts.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 248/1990 segir að reglugerðin taki til sveitarfélaga, fyrirtækja þeirra og stofnana og eftir því sem við á til ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, þó ekki til banka í eigu ríkisins. Embætti ríkisféhirðis telst vera ríkisstofnun.

Samkvæmt 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, skal endurgreiða sveitarfélögum og ríkisstofnunum virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu. Þjónusta lögmanna fellur undir þetta ákvæði og virðisaukaskattur vegna innheimtustarfa lögmanna er endurgreiðsluhæfur.

Þar sem ríkisféhirðir fær endurgreiðslu á þeim virðisaukaskatti sem lögmaður krefur hann um vegna innheimtustarfa er það álit ríkisskattstjóra að þegar kröfueigandi fær endurgreiðslu skv. 5. tölul. 12. gr. framangreindrar reglugerðar þá skuli sú fjárhæð sem lögmaður f.h. kröfueiganda krefur skuldara um til lúkningar innheimtukostnaði vera án virðisaukaskatts, þ.e. einungis sé krafist þeirrar fjárhæðar sem nægir til að gera kröfueiganda skaðlausan af málarekstrinum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir