Dagsetning                       Tilvísun
21. júlí 1997                             813/97

 

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til opinberra aðila skv. reglug. 248/1990 – sameiginleg innkaup – auglýsingaþjónusta.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 23. júní sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort stofnuninni sé heimilt að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af kaupum á auglýsingaþjónustu.

Við skýringu á inntaki endurgreiðsluákvæðis 5. tölul. 12. gr. ofangreindrar reglugerðar ber að styðjast við 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/1960, sbr, lög nr. 1/1988. Af þessu leiðir að heimilt er að endurgreiða greiddan virðisaukaskatt af aðkeyptri vinnu frá auglýsingastofum, þ.e. af auglýsingaþjónustu s.s. gerð, miðlun og ráðgjöf varðandi auglýsingar, en ekki af auglýsingabirtingum, prentþjónustu o.s.frv.

Með vísan til bréfs yðar og samtals við yður virðist stofnunin vera einn af fleirum greiðendum fyrir þjónustuna. Í bréfinu kemur jafnframt fram að stofnunin hafi tekið ákvörðun um að færa bókhald verkefnisins hjá sér með tilliti til þess að fá virðisaukaskattinn endurgreiddan.

Af framansögðu þykir ljóst að stofnunin er ekki í raun eini greiðandi þjónustunnar. Með vísan til þessa verður ekki séð að stofnuninni sé heimilt að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af heildarkaupunum heldur einungis að þeim hluta sem hún í raun greiðir. Um skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts af sameiginlegum innkaupum skal bent á ákvæði 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, sbr. lokamálslið 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 248/1990. Það er því álit ríkisskattstjóra að opinberum aðilum sé einungis heimilt að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af þeirri þjónustu sem þeir greiða fyrir og er í raun kostnaður þeirra.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.