Dagsetning                       Tilvísun
02.12.2005                              09/05

 

Endurgreiðsla virðisaukaskatts til opinberra aðila – vinna háskólamenntaðra sérfræðinga við rannsóknir.

Vísað er til bréfs yðar, sem barst með tölvupósti 14. nóvember 2005, þar sem spurt er hvort vinna háskólamenntaðra sérfræðinga X við rannsóknir fyrir opinbera aðila sé þess eðlis að hún falli undir 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaksatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.

Í tilefni af fyrirspurn yðar bendir ríkisskattstjóri á að endurgreiðsla virðisaukaskatts til opinberra aðila byggir á ákvæðum 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, sbr. III. kafla reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Samkvæmt 4. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, skulu ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra greiða virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu vegna eigin nota, enda sé ekki um að ræða vinnu eða þjónustu samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laganna sem innt er af hendi utan sérstaks fyrirtækis eða þjónustudeildar. Samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 skal endurgreiða ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau hafa greitt við kaup á þargreindri þjónustu eða vöru. Meginmarkmið reglna um skattlagningu innri starfsemi opinberra aðila og um sérstakar endurgreiðslur virðisaukaskatts til þeirra er að jafna samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja gagnvart fyrirtækjum og þjónustudeildum opinberra aðila sem framleiða vörur eða inna af hendi þjónustu til eigin nota og verður að skýra ákvæði 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 svo og reglugerðar nr. 248/1990, þ.m.t. um endurgreiðslur virðisaukaskatts, í því ljósi. Í framkvæmd hefur verið talið að túlka beri endurgreiðsluákvæðin þröngri lögskýringu vegna tengingar þeirra við skattskyldu samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, sbr. einnig 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 248/1990 enda feli þau í sér undanþágur frá virðisaukaskattsskyldu.

Samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. einnig 5. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, skal endurgreiða opinberum aðilum virðisaukaskatt sem þeir greiða við kaup á „þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu og lokið hafa háskólanámi, sambærilegu langskólanámi eða starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra aðila og veita sambærilega þjónustu“. Eins og rakið hefur verið hér að framan hefur verið talið að túlka beri endurgreiðsluákvæðin þröngri lögskýringu.

Í fyrirspurn yðar kemur fram að í útseldri þjónusta X til opinberra aðila felist vinna háskólamenntaðra sérfræðinga við rannsóknir. Við mat á því hvort um er að ræða þjónustu sem fellur undir 5. tölul. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. einnig 5. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, þykir verða að líta til þess hvort um er að ræða þjónustu sem krefst þeirrar sérfræðiþekkingar sem þar er talin. Ef um slíka þjónustu er að ræða myndi hún falla undir fyrrnefnt ákvæði og fengist virðisaukaskattur opinberra aðila þá endurgreiddur á grundvelli ákvæðisins. Ef um er að ræða þjónustu sem ekki krefst sérþekkingar, sbr. framangreint, myndi hún ekki falla undir skilgreiningu ákvæðisins. Sama kann að eiga við ef aðeins hluti þjónustunnar krefst sérfræðiþekkingar en aðrir hlutar ekki. Virðisaukaskattur fengist endurgreiddur af þeim hluta þjónustunnar sem krefst sérfræðiþekkingar ef unnt er að sýna fram á hlutfall hans. Við mat á því hvort þjónusta sé þess eðlis að virðisaukaskattur fáist endurgreiddur til opinbers aðila á grundvelli 5. tölul. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. einnig 5. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, verður því að leggja mat á hvert verkefni fyrir sig og er ekki unnt að gefa einhlítt svar við fyrirspurn yðar. Ákvörðunarvald um endurgreiðslurétt í hverju tilviki er í höndum skattstjóra í umdæmi viðkomandi opinbers aðila.

 

Ríkisskattstjóri