Dagsetning Tilvísun
25. mars 1996 727/96
Endurgreiðsla virðisaukaskatts til opinbers aðila af sérfræðivinnu í útboðum
Vísað er til símbréfs yðar, dags. 15. mars sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort sveitarfélagi sé heimilt að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af kaupum á sérfræðivinnu þegar verktaki gefur út reikning vegna sérfræðiþjónustunnar.
Í bréfi yðar kemur fram að verktaki gefi út reikning vegna sérfræðivinnu í öllum tilvikum. Ekki er ljóst samkvæmt bréfinu hvort sérfræðingar séu starfsmenn verktaka eða ekki. Í þeim tilvikum sem um er að ræða launamenn verktaka er ljóst að sölureikningur verktaka vegna sérfræðiþjónustu er gilt skjal fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af starfsemi opinberra aðila. Hvað varðar aftur á móti þá aðstöðu þegar verktaki endurselur keypta sérfræðiþjónustu horfir öðruvísi við, þ.e. sérfræðiþjónustan er einn liður í heildarverktöku þar sem verktaki er kaupandi sérfræði-þjónustunnar en ekki verkkaupi. Ríkisskattstjóri getur þrátt fyrir framangreint fallist á að sölureikningar frá verktaka, þar sem hvorki hann sjálfur né starfsmenn hans afhenda sérfræðiþjónustu, séu gild skjöl fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 5. tölul. 12. gr. framangreindrar reglugerðar, enda geti verkkaupi lagt fram ljósrit af hinum eiginlega sölureikningi sérfræðings til sönnunar fyrir afhentri sérfræðiþjónustu ef skattstjóri kallar eftir því.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.
Afrit: Samband íslenskra sveitarfélaga