Dagsetning                       Tilvísun
24. október 1996                            758/96

 

Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu við hreinsun loftræstikerfa

Vísað er til bréfs yðar, dags. 27. ágúst 1996, þar sem spurst er fyrir um hvort endurgreiða beri virðisaukaskatt af vinnu við hreinsun loftræstikerfa í fjölbýlishúsum, samkvæmt reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

Í bréfi yðar kemur fram að þegar um hreinsun loftræstikerfa er að ræða eru mótorar og stýrilokar hreinsaðir og smurðir og síur hreinsaðar eða skipt um þær, ásamt því að kerfið er ryksugað og burstað. Samkvæmt byggingarreglugerð skulu gluggalaus herbergi vera með loftræstingu til þess að nauðsynleg endurnýjun á súrefni geti átt sér stað. Til þess að loftræstikerfi virki þarf að halda þeim við sem felst m.a. í hreinsun kerfisins.

Skv. 5. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990, ber ekki að endurgreiða virðisauka- skatt vegna vinnu manna við ræstingu, garðslátt og aðra reglulega umhirðu íbúðarhúsnæðis sem ekki verður talin viðhald eignar.

Að áliti ríkisskattstjóra telst hreinsun loftræstikerfa vera regluleg umhirða íbúðar-húsnæðis, enda um að ræða eðlilegan og fastan vinnuþátt í húsnæði þar sem loftræstikerfi er til staðar. Því fæst virðisaukaskattur af aðkeyptri vinnu við hreinsun loftræstikerfa ekki endurgreiddur. Ef vinnan er hins vegar fólgin í því að skipta um síur, smyrja mótora o.þ.h. þá telst slík vinna viðhald eða endurbætur og fæst virðisaukaskatturinn endurgreiddur af þeim þætti. Ef saman fer hreinsun og viðhald eða viðgerð þarf að aðgreina þá vinnuþætti á reikningi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir