Dagsetning                       Tilvísun
27. desember 1993                            604/93

 

Fasteignaleiga og gistiþjónusta

Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. desember 1993, þar sem lagðar eru fram ýmsar spurningar varðandi fasteignaleigu og gistiþjónustu.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram, að samkvæmt 8. tl. 3. mgr. 2. gr., sbr. 2. tl. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, ber útleiga hótel- og gistiherbergja og útleiga tjaldstæða, svo og önnur gistiþjónusta þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar 14% virðisaukaskatt frá og með 1. janúar 1994.

Atvinnufyrirtæki eru skattskyld vegna sölu sinnar á skattskyldri vöru og þjónustu sem fram fer í atvinnuskyni og í samkeppni við atvinnufyrirtæki,, sbr. 1. tl. 1. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga. Við mat á því hvort starfsemi er rekin í atvinnuskyni er aðallega miðað við hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri. Starfsemi telst ekki rekin í atvinnuskyni ef samtals tekjur vegna hennar eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti vegna starfseminnar.

Samkvæmt ofanrituðu hvílir sú skylda á atvinnufyrirtækjum, sem stunda sölu eða leigu á vöru eða þjónustu í atvinnuskyni og í samkeppni við atvinnufyrirtæki að innheimta virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir umrædda þjónustu og standa skil á honum í ríkissjóð, enda nemi samtals skattskyld sala a.m.k. 185.200 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1993).

Að öðru leyti er vísað í meðfylgjandi bréf ríkisskattstjóra, dags. 27. desember 1993, um fasteignaleigu og gistiþjónustu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson