Dagsetning Tilvísun
23. des. 1992 435/92
Fjármögnunarleiga erlends aðila.
Með bréfi yðar, dags. 29. sept. sl., er óskað leiðbeininga ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts af fjármögnunarleigu erlends aðila hér á landi.
Erlendur aðili sem selur hér á landi skattskylda þjónustu samkvæmt lögum nr. 50/1988 er skyldur til að tilkynna um starfsemi sína til skattstjóra, innheimta virðisaukaskatt af þessum viðskiptum og standa skil á honum í ríkissjóð samkvæmt almennum reglum laganna.
Samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum er umboðsmönnum og öðrum sem eru í fyrirsvari fyrir erlenda aðila sem reka hér á landi skattskyld viðskipti skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð.
Af bréfi yðar má ráða að hinn íslenski innflutningsaðili sé í raun umboðsmaður hins erlenda eignarleigufyrirtækis. Annars verður ekki annað séð en að þegar tækið er selt aftur til erlends aðila þá beri að útskatta það, þ.e.a.s. tækið er ekki flutt úr landi og því ekki um eiginlegan útflutning að ræða.
Af framansögðu er ljóst að hinu erlenda eignaleigufyrirtæki ber að hafa umboðsmann hér á landi og ber honum þá að innheimta virðisaukaskatt af leigugjaldinu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.