Dagsetning                       Tilvísun
23. júní 1995                            688/95

 

Flutningur á snjó – snjómokstur

Vísað er til bréfs yðar dags. 13. júní 1995, þar sem spurst er fyrir um hvort flutningur á snjó myndi stofn til endurgreiðslu virðisaukaskatts hjá sveitarfélögum skv. ákvæðum reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af starfsemi opinberra aðila. Um er að ræða flutning á snjó með vörubifreiðum í höfn viðkomandi sveitarfélags, þegar ekki er lengur hægt að ryðja götur á hefðbundinn hátt vegna snjóþyngsla.

Samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 skal endurgreiða ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau hafa greitt vegna snjó- moksturs. Í ákvæðinu er skýrlega tekið fram að einungis skuli endurgreiða hinum opinberu aðilum virðisaukaskatt vegna snjómoksturs. Ákvæðið nær því aðeins til eiginlegs snjómoksturs, en ekki til annarrar hliðstæðrar starfsemi s.s. salt- og sand- dreifingar.

Ríkisskattstjóri fellst á að atvik þau er þér lýsið í bréfi yðar falli undir undanþágu-ákvæðið, þ.e. þegar snjóþyngsli eru það mikil að engin auð svæði eru lengur til að ryðja snjónum á í grennd við göturnar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir