Dagsetning                       Tilvísun
8. desember 1993                            590/93

 

Fólksflutningar, gistiþjónusta og milliganga um ferðaþjónustu

Vísað er til bréfs yðar, dags. 19. nóvember 1993, þar sem beðið er um túlkun ríkisskattstjóra á ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er varða fólks-flutninga, gistiþjónustu og milligöngu um ferðaþjónustu.

Í bréfi yðar kemur fram að þér viljið benda á þær leiðir sem þér og samstarfsmenn yðar telja vænlegastar miðað við að fólksflutningar, gistiþjónusta og milliganga um ferða-þjónustu verði skattskyld um næstu áramót. Eftirfarandi er tekið fram:

  1. Lagt er til að félagið skili útskatti vegna allrar sölu á fargjöldum innanlands, hvar svo sem salan fer fram hér á landi, á söluskrifstofum X, hjá umboðsmönnum eða ferðaskrifstofum.

Svar:   Samkvæmt almennum reglum virðisaukaskattslaga eiga X að skila virðisaukaskatti af skattskyldri sölu söluskrifstofa félagsins.

Virðisaukaskattslög gera í grundvallaratriðum engan mun á umboðs- eða umsýslusölu og almennri endursölu (sölu sem fer fram fyrir reikning endur-seljanda). Sala eða afhending á vöru sem seld er í umsýslusölu telst til skatt-skyldrar veltu skráðs aðila, sbr. 2. mgr. 11. gr. virðisaukaskattslaga. Með lögjöfnun telur ríkisskattstjóri að ákvæðið taki einnig til sölu á þjónustu sem seld er í umsýslusölu. Sala frá umsýsluveitanda til umsýslumanns telst til skattskyldrar veltu skráðs umsýsluveitanda. Hins vegar á hann val um það hvort hann telur söluna til skattskyldrar veltu við afhendingu eða þegar uppgjör fer fram við umsýslumann, sbr. 4. mgr. 13. gr. virðisaukaskattslaga, enda gæti hann skilyrða þess ákvæðis.

Samkvæmt 3. tl. 2. mgr. 14. gr. virðisaukaskattslaga, með síðari breytingum, mun milliganga um ferðaþjónustu bera 14% virðisaukaskatt frá og með næstu áramótum. Þannig verður lagður virðisaukaskattur á þá umboðsþóknun sem ferðaskrifstofa eða sambærilegur aðili innheimtir af þjónustusala, t.d. flugfélagi eða fólksflutningafyrirtæki.

Við milligöngu á skattskyldri sölu ber ferðaskrifstofum að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð samkvæmt almennum reglum virðisaukaskattslaga.

Rétt þykir að túlka reglur 3. mgr. 13. gr. laganna, um uppgjör skattskyldrar veltu vegna umsýslu- eða umboðssölu, þannig að þær nái einnig til milligöngu í ferðaþjónustu.

  1. Í bréfi yðar er tekið fram að rétt þyki að flugvallargjald verði ekki hluti skattverðs við sölu á flugfarseðlum.

Svar:   Samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 7. gr. virðisaukaskattslaga telst til skattverðs skattar og gjöld samkvæmt öðrum lögum sem á hafa verið lögð á fyrri viðskiptastigum eða greidd hafa verið við innflutning til landsins eða virðisaukaskattsskyldur aðili á að standa skil á vegna sölu.

Í 2. kafla laga nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, kemur fram að flugvallargjalds skuli getið í verði flugfarseðils og að eigandi loftfars og sá er ber ábyrgð á rekstri þess beri ábyrgð á greiðslu flugvallargjalds. Þannig er flugvallargjald skattur eða gjald samkvæmt öðrum lögum sem virðisaukaskattsskyldur aðili á að standa skil á vegna sölu, og því hluti af skattverði í skilningi 1. tl. 2. mgr. 7. gr. virðisaukaskattslaga.

  1. Í staðgreiðslusölu verði farseðill í innanlandsflugi einnig notaður sem reikningur. Hér er átt við þá sérstöku staðgreiðslu farseðla, sem eingöngu er hægt að nota í innanlandsflugi. Þegar innanlandsfarseðlar verða gefnir út í reikning verður gefin út önnur gerð innanlandsfarseðla en við staðgreiðslusölu og jafnframt gefið út skjal er nefnist „greiðsluskuldbinding – reikningur“. Sama gerð farseðla verður notuð við endurútgáfur, en þá verður ekki gefin út „greiðsluskuldbinding – reikningur“ enda hafi reikningur verið gefin út við sölu. Umboðsmenn félagsins úti á landi (þ.e. aðrir en sjálfstæðar ferðaskrifstofur) munu nota sömu gerðir innanlandsfarseðla og lýst er hér að framan. Þegar innanlandsfargjöld eru seld á Íslandi á hinum alþjóðlegu (B) flugskjölum verði gerður sérstakur reikningur.

Svar:   Ríkisskattstjóri setur ekki fram sérstakar athugasemdir við þennan lið, enda virðist þetta fyrirkomulag vera í fullu samræmi við almennar reglur virðis-aukaskattslaga.

  1. Lagt er til að öll innanlandsfargjöld seld erlendis, verði án virðisaukaskatts, enda sé gengið út frá því að um bein tengsl við millilandaflug sé að ræða. Einnig er lagt til að öll innanlandsfargjöld seld á Íslandi verði með virðisaukaskatti, en þó með þeirri undantekningu að innanlandsfargjöld seld í beinum tengslum við millilandaflug (einn samningur) verði undanþegin virðisaukaskatti.

Svar:   Samkvæmt núgildandi lögum verður allt farþegaflug innan lands skattskylt frá og með næstu áramótum. Þess skal þó getið að samkvæmt frumvarpi til laga um breytingar í skattamálum, sem lagt hefur verið fyrir 117. löggjafarþing Alþingis, er lagt til að fólksflutningar innan lands verði undanþegnir skattskyldri veltu, þegar flugið er hluti af fólksflutningum til og frá landinu. Við mat á því hvenær fólksflutningar með flugi eru í beinu framhaldi af flugi til og frá landinu er fyrst og fremst miðað við að á fyrirliggjandi flugfarseðli ferðamanns, eða öðrum söluskjölum, komi fram að ferðast sé á milli landa. Nauðsynlegar tafir á slíkri ferð, t.d. við skipti á flugvélum, myndu ekki leiða til þess að litið yrði á innanlandsflugið sem skattskyldan fólksflutning innan lands.

  1. Í bréfi yðar er tekið fram að allstór þáttur í ferðaþjónustu sé sala „pakkaferða“. Þegar þjónustan sé seld með milligöngu (notkun) þjónustuskjala Flugleiða, er tæknilega óframkvæmanlegt að gera upp virðisaukaskattinn fyrr en þjónustan hefur verið veitt. Þess má geta að ferðaskrifstofur í B gera upp alla umboðssölu sína í gegnum B og er þar bæði um að ræða sölu flugfarseðla og sölu á annarri þjónustu (hótel, bílaleigur o.fl.).

Svar:   Samkvæmt núgildandi lögum um virðisaukaskatt ber ferðaskrifstofum að sundurliða á reikningi samsetta sölu á vörum og/eða þjónustu ef hin samsetta sala er eigi í sama skatthlutfalli, sbr. 4. mgr. 20. gr. laganna. Þó telur ríkisskattstjóri að heimilt sé að hafa samsetta sölu í einu skatthlutfalli ef salan er látin fylgja skatthlutfalli þess söluliðs sem telst vera í hæsta skatthlutfalli hverju sinni. Einnig skal þess getið að í áður nefndu lagafrumvarpi er gert ráð fyrir að viss samsett sala ferðaskrifstofa beri 14% virðisaukaskatt, þ.á.m. samsett sala ferðaskrifstofa á fólksflutningum, gistingu og tilreiddum morgunverði.

Um uppgjör skattskyldrar veltu vísast til svars í fyrsta liðs bréfs þessa.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson